143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[02:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera að lengja þessa umræðu. Ég ætla að þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að vera viðstaddur umræðuna í allt kvöld. Ég vil líka segja að þetta hefur síst verið löng umræða. Þetta eru um 10 klukkutímar varðandi annan af stóru bandormunum um tekjuöflun ríkissjóðs. Það kom fram í máli hv. þingmanns að ég hefði ekki verið hér við 1. umr. Nú man ég ekki hvenær hún fór fram og af hvaða ástæðum ég ekki var hér. (PHB: Ég veit ekki um hvað þú ert að ræða, ég tók ekki þátt í henni. Það getur vel verið að hv. þingmaður hafi verið viðstaddur.) Ég hef bara ekki hugmynd um það akkúrat á þessari stundu. Ég vil þó líka benda á að yfirleitt er það þannig að maður sér ekki fyrr en með dags fyrirvara hvaða mál eru á dagskrá og stundum eru aðstæður þannig að maður getur ekki breytt þeim með mjög skömmum fyrirvara. Ég hef verið viðloðandi þessa umræðu í allan dag en fór af persónulegum ástæðum og þurfti að fylgjast með umræðunni frá öðrum stað um tíma í kvöld og kom á mælendaskrá því að ég var komin aftur í húsið. Ég get ekki séð að það geri orð mín minna merk að þau séu borin hér fram á ákveðnum tíma.

Ég held að einboðið sé að við fáum þetta mál til umsagnar í nefndinni. Við erum búin að afgreiða öll okkar mál út og það er engum vandkvæðum bundið fyrir okkur að hafa hraðar hendur. Við fjölluðum um fjárlagafrumvarpið í nefndinni, frumvarpið sjálft, bara til að afla okkur upplýsinga. Það er lágmark að við séum ítarlega inni í því í nefndinni hvaða breytingar er verið að gera á þeim lagabálkum sem undir hana heyra. Það er venja að formenn taki það upp hjá sjálfum sér ef þeir telja ástæðu (Forseti hringir.) til að senda mál þangað sem þau eiga heima.