143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

ný stjórn RÚV og uppsagnir.

[10:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef áður lýst því yfir úr þessum ræðustól að ég beri full traust til stjórnar Ríkisútvarpsins. Sá niðurskurður sem við blasir stafar af því að þær ákvarðanir sem teknar höfðu verið með nýjum lögum um Ríkisútvarpið sneru að takmörkun á möguleikum þeirrar stofnunar að heimta tekjur af auglýsingamarkaði og þess vegna þarf að fara í gegnum sársaukafullar niðurskurðaraðgerðir. Þær koma reyndar í kjölfar þess að verulegur niðurskurður varð á ríkisframlaginu á síðustu árum. Ég held að ekki fari vel á því að reyna að setja þetta í einhvern búning pólitískra ofsókna. Ég held að þeir sem skoða málið af sanngirni sjái að auðvitað liggur það ekki þannig. Ég minnist þess ekki þegar síðasta ríkisstjórn skar niður ríkisframlagið með þeim hætti sem gert var sem gerði að verkum að miklar uppsagnir voru á Ríkisútvarpinu — ætli það hafi ekki verið einir 50 starfsmenn sem þurftu að sæta því að vera sagt upp — að þá hafi verið uppi slík brigslyrði um pólitískar ofsóknir.

Menn átta sig á því að það er erfið staða í ríkisfjármálunum og við henni er verið að bregðast. Það voru einfaldlega ekki færi til þess að auka útgjöld úr ríkissjóði til Ríkisútvarpsins. Það er sú staða sem uppi er.

Hitt er það að ég tel að Ríkisútvarpið hafi úr nægum fjármunum að spila til að sinna sínu lögbundna hlutverki, en það þýðir auðvitað að það þarf að forgangsraða í starfseminni, reyndar eins og víða annars staðar. Við þekkjum þetta úr mörgum öðrum viðkvæmum málaflokkum sem skipta okkur svo miklu máli, t.d. í heilbrigðisþjónustu.

Ég held að það fari vel á því að sleppa brigslyrðum um pólitískar ofsóknir, horfast frekar í augu við þann vanda sem við er að etja í ríkisfjármálunum (Forseti hringir.) og hvaða leiðir við höfum til að vinna sameiginlega úr þeim.