143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

málefni Dróma.

[10:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langaði að segja frá því að ég stóð mig að því að ganga brosandi um þinghúsið í gær. Það er ekki laust við að hæstv. ráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir sé búin að koma mér í jólaskap. Hún hefur nefnilega lagt metnað sinn í að klára lög um að stöðva nauðungarsölur fyrir jól. Jólagjöfin hennar til fjölda skuldugra heimila er þar af leiðandi minni áhyggjur yfir hátíðarnar og það er líklega eitt það verðmætasta sem skuldug heimili landsins geta fengið.

Í gær voru sex mánuðir frá því að það kom viljayfirlýsing frá Dróma, eignasafni SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans, um að færa eignir Dróma inn í eignarhaldsfélag Seðlabankans og inn í Arion banka og afgreiða þetta mál. Fram kom í fréttum að samningar um Dróma yrðu hugsanlega kláraðir fyrir áramót. Mig langar því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson hvort hann sé ekki líka með jólaglaðning fyrir skuldug heimili landsins, hvort hann geti ekki gert eitthvað, boðið hjálp sína, aðstoð eða hvað það væri, til að ljúka því ferli að færa skuldasafn Dróma inn í eignarhaldsfélag Seðlabankans og inn í Arion banka fyrir jól og minnka þannig áhyggjur þess fólks sem hefur hvað mest þurft að standa í strögli við fjármálafyrirtæki sem það skuldar.