143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

vinna breytingartillagna við fjárlög.

[10:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir heiðarlegt og drengilegt svar um það með hvaða hætti þetta gekk fram. Þetta var sem sagt tillaga ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til fjárlaganefndar, sem hafnaði henni.

Ég vil þá spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort forustumenn ríkisstjórnarflokkanna hafi áður en að þessu kom kynnt fyrir forustu fjárlaganefndar hugmyndir að nýrri tekjuöflun, m.a. af sjávarútvegi, til þess að forða niðurskurði, og hvort forusta fjárlaganefndar hafi líka hafnað þeim hugmyndum ríkisstjórnarinnar og hvort það sé rétt að forusta fjárlaganefndar hafi knúið ráðherra ríkisstjórnarinnar til þess að skera niður um 5% ætlaða 23% aukningu í þeirra eigin ráðuneyti og það hafi verið hluti af því að fá þó það af tillögum ríkisstjórnarinnar samþykkt í fjárlaganefnd að fallast á þessa kröfu forustu fjárlaganefndar.