143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

[11:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Eins og ég kom inn á áðan hefur ekki með neinum hætti verið sýnt fram á að faglegur eða fjárhagslegur ávinningur sé af slíkri sameiningu. Það kom fram í góðri skýrslu sem Vífill Karlsson og Magnús B. Jónsson lögðu fram og menn þekkja, „Hvers vegna ættum við að hafa marga háskóla og dreift háskólanám?“. Þar eru dregin fram sterk rök fyrir því að námsframboð á háskólastigi verði ekki einskorðað við einn eða fáa staði á landinu, heldur sé nauðsynlegt að hafa fjölbreytni og að litlir háskólar mæti þeirri eftirspurn.

Á Hvanneyri hefur farið fram mjög faglegt starf, eins og menn þekkja sem þar þekkja til. Það er enginn sparnaður, þvert á móti kostnaðaraukning. Það hefur ekki komið fram að hæstv. ráðherra ætli að skera niður þann hala sem hefur fylgst þessum háskóla í gegnum árin. Það hefur hvergi komið fram. Það hefur komið fram að mikil hætta sé á því að búfræðinám verði veikt og verði hliðarbúgrein ef það verður sameinað (Forseti hringir.) Háskóla Íslands. Er markmiðið kannski eingöngu að styrkja og efla Háskóla Íslands á kostnað Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri?