143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[11:16]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Gerðar voru breytingar á því að fjárlög eru ekki lengur send til umsagnar í fagnefndum. Út af fyrir sig geri ég ekki athugasemd við það, en ég geri athugasemd við það að margt af því sem hér er verið að ákveða er ákveðið af fjárveitingavaldinu í málum sem heyra undir einstakar nefndir. Þannig er það til dæmis varðandi Ríkisútvarpið, þannig er það varðandi skólagjöldin og þetta kom áður í fjáraukanum í sambandi við tilfærslur þar sem menn eru að safna í sjóði vegna einhverra ákveðinna breytinga sem ekki hafa verið ræddar í allsherjar- og menntamálanefnd.

Ég tel afar mikilvægt að við breytum þessu vinnufyrirkomulagi þannig að fagnefndirnar fái tækifæri til að meta áhrifin á málaflokkinn án þess að ætla að vera fjárlaganefnd, alveg eins og ég ætlast til þess að fjárlaganefnd verði ekki sá aðili sem ákveður eingöngu hvaða efnisbreytingar verða í málaflokkum einstakra nefnda.

Þetta er mjög gagnrýnisvert við þá málsmeðferð sem hér er. Það er auðvitað tímahrak á málunum og við þurfum að reyna að ljúka þeim (Forseti hringir.) en ég vil að þessi áminning komi hér fram. Ekki var orðið við ósk okkar um að taka menntamálin inn í allsherjar- og menntamálanefnd í þessu samhengi.