143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[11:18]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að taka vel í þessa ósk velferðarnefndar og formanns velferðarnefndar sem ég tel að sé vel rökstudd og skynsamleg til að tryggja hér fullnægjandi málsmeðferð. Ég bendi jafnframt á, eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson hefur gert, að hér erum við að tala um stór stefnumál að því er varðar verksvið allsherjar- og menntamálanefndar, að því er varðar skráningargjöld til háskólanna og þó nokkrar greinar sem varða Ríkisútvarpið. Ég vænti þess að sami skilningur ríki að því er varðar þau mál sem þar eiga heima.

Mér finnst mikilvægt að við áttum okkur á því að hér er ekki um að ræða bandorm í hefðbundnum skilningi þar sem verið er að huga að hefðbundnum hækkunum o.s.frv. heldur eru hér margir laumufarþegar á ferð og gríðarlega mikið um stór stefnumál sem verðskulda miklu meiri umræðu og ítarlegri umfjöllun en þessi mál hafa fengið. (Forseti hringir.) Ég fagna því að menn sjái sóknarfæri í því að taka þetta inn til fagnefndar milli 2. og 3. umr.