143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[11:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér kemur til atkvæða eitt af þeim efnisatriðum sem við í Samfylkingunni munum fram að þinglokum beita okkur eindregið fyrir að gerðar verði breytingar á. Ég vil segja í þessum ræðustól, sem er ræðustóll lýðræðisins, að aðfarirnar gagnvart Ríkisútvarpinu vekja manni áhyggjur um sjálfstæði stofnunarinnar, áhyggjur um pólitískan þrýsting og íhlutun um þá stofnun sem á að standa vörð um lýðræðislega og hlutlausa umræðu á Íslandi. Það er svo alvarlegt mál að við munum hér fram á síðustu stund í þessu þinghaldi berjast fyrir því að það gangi til baka.