143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[11:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Fæðingarorlofssjóður er hagsmunamál foreldra, barna, atvinnulífsins, ríkisins, sveitarfélaga, snýst um að hægt sé að koma börnum hér á legg án þess að hafa of miklar fjárhagslegar áhyggjur. Á síðasta kjörtímabili voru stigin stór og veigamikil skref í að efla þennan mikilvæga sjóð og þennan mikilvæga þátt í velferðarkerfinu og atvinnulífinu með því að reyna að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, með því að lengja fæðingarorlofið. Um það hefur lengi verið talað.

Lykillinn að fjármögnun þessa er sá að Fæðingarorlofssjóður er með markaðan tekjustofn í tryggingagjaldi. Sagan á bak við það sem verið er að gera hér núna er að verið er að seilast í þann tekjustofn, það er pólitísk stefnumörkun, pólitísk ákvörðun um að veikja Fæðingarorlofssjóð, með því að kippa stoðunum undan honum.

Því erum við í Bjartri framtíð að sjálfsögðu á móti.