143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[11:43]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við vorum áðan að greiða atkvæði um það hvort lengja ætti fæðingarorlofið en hér erum við að greiða atkvæði um að hækka þakið, þ.e. hversu hátt megi greiða út úr Fæðingarorlofssjóði. Báðar þessar tillögur — það er rétt að verið var að ávísa inn í framtíðina vegna þess að við vildum að það væri framtíðarsýn fyrir þá sem hér eru að ákveða hvort þeir ætla að eiga börn og hvernig þeir ætla að haga sínu lífi. Það er akkúrat þessi framtíðarsýn sem vantar. Þess vegna var settur inn ákveðinn rammi sem var raunhæfur miðað við þá stöðu sem var á fjárlögum.

Við styðjum þessa tillögu, vegna þess að þetta er gott skref, um leið og við hörmum að menn skuli hafa horfið frá því að móta framtíðarsýn hvað varðar fæðingarorlofið og halda okkur þá í því að vera með hvað styst fæðingarorlof af öllum Evrópuþjóðum og langlægst af Norðurlandaþjóðunum.

En það er full ástæða til að fagna þessum áfanga.