143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og nefndarmanni í fjárlaganefnd Bjarkeyju Gunnarsdóttur kærlega fyrir framsöguræðu hennar. Það kveður við svolítið kunnuglegt stef og stefna Vinstri grænna birtist skýrlega í þessu nefndaráliti og tillögum til tekjuöflunar. Hér er lagt til í breytingartillögum frá hv. þingmanni að auka tekjur ríkisins um tæpa 12,5 milljarða með aukinni skattheimtu. Það er því svolítið merkilegt að sjá að hér er gagnrýnt að núverandi meiri hluti boði að auðlegðarskattur verði lagður af.

Það er nú svo að vinstri stjórnin lagði þennan auðlegðarskatt á og hann rennur sjálfkrafa út nú um áramót. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort þetta sé það sem koma skal í framtíðarsýn Vinstri grænna, að halda áfram þessari gríðarlegu skattlagningu til að fá meiri ríkistekjur.