143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni greinargóð svör. Ég trúi því að þau endurspegli okkar pólitík. Við gerum greinarmun á því hvaða leið við viljum fara að sama markmiði. Það er augljóst.

Það er nefnilega möguleiki við þessar aðstæður að draga úr sköttum, fara tekjuleiðina, þ.e. draga úr skattbyrði á atvinnulíf og heimili þannig að það myndist svigrúm til að auka umsvifin í hagkerfinu. Það er nákvæmlega það sem við sjáum endurspeglast í þessum fjárlögum. Við erum að verja bótakerfið en við erum að hagræða og draga úr útgjöldum þar sem hægt er til að rjúfa vítahring aukinnar skuldsetningar og vaxtabyrði sem við komumst ekki út úr nema að fara þessa leið.