143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætt sögulegt yfirlit. Þingflokkur VG er nú orðinn býsna sigggróinn á því að klappa sjálfum sér á bakið, en mig langar að spyrja út í nokkra frasa. „Stórkarlaleg gamaldags atvinnuuppbygging“, ég bið þingmanninn að segja mér og öðrum nýjasta dæmið um slíkt og hvar það er, í boði hverra og hvað sú uppbygging mun kosta ríkissjóð.

Í öðru lagi talar hún um stórbætta afkomu sjávarútvegs á árunum 2014 og 2015. Hvaða upplýsingar hefur þingmaðurinn sem við höfum ekki? Nú er verð þorskafurða 25% lægra en verið hefur, það gengur erfiðlega að ná síldarkvóta og það er ekki búið að gefa út loðnukvóta. Mig langar að vita hvað þingmaðurinn veit í þessum efnum sem við hin vitum ekki.