143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:22]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur, fulltrúa Bjartrar framtíðar, fyrir yfirferð hennar á áliti 3. minni hluta fjárlaganefndar þar sem hún gerði ágætlega grein fyrir þeim sjónarmiðum sem hún stendur fyrir. Ég hef líka skoðað breytingartillögur sem hún hefur lagt fram við fjárlagafrumvarpið og þar eru áherslur mjög svipaðar þeim sem aðrir stjórnarandstöðuflokkar hafa, m.a. mikil áhersla lögð á verkefni sem voru hluti af fjárfestingaráætluninni. Ég vil ekki tala um hina „svokölluðu“ fjárfestingaráætlun sem sumir tala um heldur bara fjárfestingaráætlunina sem við söknum mörg að sjái ekki stað í fjárlagafrumvarpinu.

Í umfjöllun hv. þingmanns talar hún líka um tekjur ríkissjóðs og mikilvægi þess að ríkisreksturinn sé í jafnvægi og bendir á að ríkisstjórnin hafi hugsanlega að óþörfu afsalað ríkissjóði umtalsverðum tekjum eins og af veiðigjaldi, virðisaukaskatti í ferðaþjónustu og öðru slíku sem hefur verið til umræðu í þessu samhengi. Í breytingartillögu 3. minni hluta eru sem sagt útgjaldatillögur upp á að því er mér sýnist í fljótu bragði um það bil 3 milljarða kr. Ég sé engar tekjutillögur frá 3. minni hluta fyrir fjárlagafrumvarpið þannig að mig langar að spyrja hv. þingmann hvort þetta stangist hugsanlega eitthvað á, þ.e. umfjöllunin um tekjur í nefndaráliti 3. minni hlutans og breytingartillögurnar sem lagðar eru fram um útgjöld upp á 3 milljarða án þess að tekjur komi á móti, eða skiptir það kannski ekki svo miklu máli í stóru myndinni hvort ríkissjóður sé rekinn með 600 milljóna afgangi þegar heildarreksturinn er 600–700 milljarðar? Hvernig lítur þingmaðurinn á þetta samhengi?