143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt, þeir liðir sem við tökum út úr fjárfestingaráætluninni eru eitthvað um 2,8 milljarðar. Við bendum á að ríkið geti aukið tekjur. Við lögðum ekki fram neina sérstaka breytingartillögu um það eða áætlun á sérblaði en það liggur fyrir að með því að falla t.d. frá breytingum á milliþrepstekjuskatti, þar eru 5 milljarðar, og virðisaukaskatti af gistingu og leggja hann t.d. á í september, hann gæti orðið 500 milljónir, er hægt að sækja peninga þangað. Ég á ekkert endilega von á því að meiri hlutinn samþykki breytingartillögur okkar þannig að þær eru bara lagðar fram til að sýna stefnu okkar.

Mér finnst samt mikilvægt að nefna að þegar við komum með tillögur sem eru hátt í 3 milljarðar, eins og hv. þingmaður bendir á, bendum við á tekjur á móti sé vilji til þess að afla þeirra.