143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:26]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta svar. Það er alveg hárrétt að það er bent á ýmsar tekjuleiðir sem væri hægt að fara. Þá ætla ég að vekja máls á því að í tillögum til að mynda 2. minni hluta fjárlaganefndar frá hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur og ég hygg líka 1. minni hluta frá Oddnýju Harðardóttur eru tillögur um tekjuliði, m.a. þá sem hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir gerði grein fyrir í máli sínu og Björt framtíð bendir á, svo sem tekjuskattur einstaklinga og miðstaðgreiðsluþrepið, að falla frá þeirri lækkun, og tillögur um virðisaukaskattinn að því er varðar ferðaþjónustuna og veiðigjöldin.

Mig langar að kalla eftir afstöðu hv. þingmanns og Bjartrar framtíðar til þeirra tekjutillagna sem er að finna á öðrum þingskjölum, bæði frá 1. og 2. minni hluta fjárlaganefndar. Og svo vil ég velta því upp líka hvort fjárlaganefnd hafi á einhverjum tímapunkti skoðað heildaráhrifin af þeim breytingum sem eru lagðar til á afkomu heimila í landinu. Það er verið leggja til að lækka miðþrepið í tekjuskattinum en svo eru ýmsar ráðstafanir sem tengjast fjárlögunum, eins og við vorum að ræða hér í gærkvöldi, um verðlagshækkanir og annað slíkt, sem hafa væntanlega verðbólguhvetjandi áhrif og geta leitt til þess að höfuðstóll skulda hækki og þar með greiðslubyrði og ýmsar gjaldskrár. Hefur fjárlaganefnd skoðað heildaráhrifin tekjumegin og gjaldamegin á heimilin? Mér finnst sú heildarmynd skipta máli. Það er ekki bara hægt að horfa á skuldalækkun og þar með lækkaðar afborganir ef sú lækkun er síðan tekið aftur með hinni hendinni í formi gjaldskrárhækkana eða þess háttar hluta.