143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:59]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir góða ræðu. Ég er sem nýr þingmaður að fylgjast í fyrsta skipti með umræðu um fjárlög ríkisins og það hefur verið virkilega gaman að fylgjast með henni.

Mig langar að spyrja þingmanninn. Þetta er kannski heimskuleg spurning, ég veit það ekki, það kemur þá í ljós, hún er ef til vill óvenjuleg. Þegar síðasta ríkisstjórn tók við var hallinn á ríkissjóði, og tölurnar eru á reiki, um 250 milljarðar sem er rosalega mikið. Á síðustu fjórum árum eða á þeim árum sem sú ríkisstjórn var við lýði minnkuðu þeir hallann jafnt og þétt þannig að samkvæmt nýjustu tölum, sem eru líka á reiki eða fara eftir því hver segir þær hérna í ræðustól, er hann hugsanlega 19,7 milljarðar og hefði jafnvel getað verið minni ef ekki hefði komið til aðgerða stjórnarflokkanna núna í haust. Hugsanlega hefði hallinn á ríkissjóði verið 15 milljarðar.

Ég veit að það er mjög metnaðarfullt og algerlega nauðsynlegt fyrir öll ríki að reka hallalaus fjárlög. En í ljósi þess hvernig staðan er í þjóðfélaginu, og ég sem þingmaður hef farið um kjördæmið og fylgst með og það eru allir frekar sjokkeraðir eftir að þeir fréttu um fjárlögin, er ég að velta því fyrir mér hvort það hefði ekki verið mikill metnaður hjá ríkisstjórninni að stefna að hallalausum fjárlögum eftir tvö ár? Ég veit það ekki, kannski er þetta heimskuleg spurning, en hefði ekki verið metnaðarfullt að gera það? Þá hefðum við getað bætt inn í heilbrigðiskerfið, menntamálin og ég tala nú ekki um okkar kjördæmi, ef ég á að vera dálítið hlutdrægur, Sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum, Verkmenntahúsið á Suðurlandi og allt sem er að gerast í því kjördæmi. Hefði ekki verið metnaðarfullt að gera þetta á tveimur árum í ljósi þess sem hefur gerst síðustu fjögur ár?