143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé vilji okkar þingmanna á hverjum tíma að skila hallalausum fjárlögum. Ég held að það hljóti að vera metnaður okkar allra. Ég vil einnig þakka hv. þingmanni ræðu hennar og tek undir með hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, mér fannst hún afskaplega málefnaleg og bjóða upp á samræðu sem við á stundum höfum saknað.

Mig langar að gera að umtalsefni það sem hv. þingmenn fóru örlítið ofan í í andsvörum sínum áðan, sínu samtali getum við sagt, varðandi Fjölbrautaskóla Suðurlands. Á fundi fjárlaganefndar kom fram að þessar 100 milljónir þyrfti í raun ekki miðað við þá stöðu sem verkefnið væri í og hv. þingmenn reifuðu málið aðeins áðan að það lægi kannski ekki alveg fyrir, þar sem mig minnir að hafi verið hönnunarkostnaður frekar en eitthvað annað sem væri uppi á 60 millj. kr. minnir mig frekar en 40, þannig að það þyrfti í rauninni ekki alla þessa fjárhæð akkúrat núna nema ljóst væri að það fylgdi strax í framhaldinu eitthvað annað. Ég ítreka því þá spurningu hvort hv. þingmaður telji að við eigum að lækka þennan lið sem því nemur eða hvort komið er á koppinn eitthvert framhald.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um annað af því að hún talaði mikið um heilbrigðismálin. Töluverðar áhyggjur komu fram í hinum dreifðu byggðum, fyrir vestan til dæmis, um að það gæti orðið mjög erfitt yfir vetrartíma að samnýta starfsfólk og annað því um líkt og víða hafa komið fram mótmæli hvað það varðar. Telur hv. þingmaður að hlusta eigi á heimamenn varðandi það eða telur hún að hægt sé að gera þetta þrátt fyrir að fólk sem hefur staðháttarþekkingu telji svo ekki vera eða mjög örðugt?