143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:30]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er tvennt efnislega sem ég hefði viljað spyrja þingmanninn út í og ég sé hvort tíminn í þessum andsvörum leyfi það að ég komist yfir hvort tveggja.

Fyrst langar mig til þess að fjalla aðeins um vaxtabæturnar og umræðurnar um þær. Mikil umræða hefur farið fram hér undanfarna daga um barnabæturnar sérstaklega og hvernig það kom til, hinar skriflegu getgátur sem sendar voru úr fjármálaráðuneytinu til fjárlaganefndar og það allt saman — sem fjárlaganefndin féllst síðan ekki á en ákvað að auka niðurskurðinn á vaxtabótunum. Ég vil spyrja að því hvort fjárlaganefnd og einstakir nefndarmenn þar hafi þá farið yfir það heildstætt hver áhrifin af breytingum af þessum toga verða. Það að draga úr vaxtabótunum hlýtur að hafa einhver áhrif á þær fjölskyldur sem njóta þeirra. Kannski eru það sömu fjölskyldurnar og fá barnabætur þannig að ekki er víst að þessi breyting hafi mikil nettóáhrif. Þetta veit ég ekki, ég spyr hvort fjárlaganefndarmenn hafi farið yfir þetta í því samhengi.

Hitt atriðið, sem ég vildi koma inn á, varðar þróunaraðstoðina. Hv. þingmaður nefndi að fara þyrfti betur yfir það og gera úttektir og annað slíkt, og ég er sammála því að menn þurfa að vita í hvað fjármunirnir fara. Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort honum sé kunnugt um að Þróunarsamvinnustofnun Íslands gefur út vefrit þar sem eru ítarlegar upplýsingar um það starf sem fer fram á vegum Þróunarsamvinnustofnunar, ársskýrslu o.fl. þar sem farið er yfir það fjármagn sem fer til stofnunarinnar, og að utanríkismálanefnd, sem fer með þróunarsamvinnumálefni hér í þinginu, fer reglubundið yfir starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar. Ég vil heyra hvort þingmanninum sé kunnugt um þetta og hvort honum finnst þetta ekki skipta máli og vera innlegg (Forseti hringir.) í umræðuna um þróunarsamvinnu.