143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, allar upplýsingar voru til en nefndina vantaði heimildir til að nálgast þær. En þær tölur sem ég nefni voru í frumvarpi ríkisstjórnarinnar og voru reiknaðar út af fjármálaráðuneytinu þannig að það er ekkert verið að kokka þær neitt sérstaklega upp hjá stjórnarminnihlutanum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um umgjörð í kringum ferðaþjónustuna sem er svo ört vaxandi hér á landi. Fyrir 20 árum síðan voru rúmlega 60 þúsund erlendir ferðamenn á Íslandi og nú stefna þeir í milljón. Auðvitað hljótum við að þurfa að búa til einhvern ramma í kringum svo vaxandi atvinnugrein, eða það er mín skoðun. Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji ekki að við þurfum að endurskoða neysluskattakerfið í kringum ferðaþjónustuna alla og hvort ekki sé nauðsynlegt að svo stór grein skili auknum tekjum í ríkissjóð.