143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur sem talaði hér áðan um að hún líti á þetta sem sameiginlegt verkefni. Ég er nefnilega einhvern veginn alltaf í þeim vandræðum sjálfur þegar ég hugsa um fjárlög eða fjármál eða peninga almennt, hvort sem það er peningakerfi, fjármálin heima fyrir, fjármálin fyrir ríkisreksturinn eða hvað, að tölur eru miskunnarlausar og stærðfræðin hefur ekki gildismat. Og þá á það til að þvælast fyrir manni, sama hvort sem maður kallar sig hægri mann eða vinstri mann eða hvað, alla vega ég reyni eftir bestu getu að líta á þetta sem samstarfsverkefni. Hversu vel það tekst ætla ég að leyfa örlögunum að dæma um, sérstaklega vegna þess að sem nýr þingmaður á ég eftir að læra talsvert mikið meira en ég get kennt og get því miður ekki boðið margt annað en skoðanir mínar, og mikið af þeim hefur mótast mjög nýlega vegna þess að þetta er allt saman frekar nýtt og ofboðslega mikið af efni.

Það fyrsta sem mig langar til þess að nefna og gagnrýna áður en ég hendi mér út í það að hrósa ríkisstjórninni fyrir ýmislegt sem er ágætt, er legugjald á spítölum sem ég hef miklar áhyggjur af. Mér heyrist að það séu um 200 milljónir sem eigi að vera hægt að hala inn með þessu gjaldi og ég hef áhyggjur af því að það verði þá aldrei tekið til baka. Það er einhvern veginn þannig með fjármagn, hvort sem það eru skatttekjur eða önnur gjöld að fé hefur tilhneigingu til þess að vera mjög vanabindandi og það er erfitt að losna við gjöld og skatta þegar það er komið á á annað borð. Mér finnst 200 milljónir í stóra samhenginu ekki endilega vera þess virði að bjóða inn nýrri tegund af gjaldi. Þá að vísu verð ég að viðurkenna að ég hef ekki alveg 100% svör við því hvar annars staðar eigi að ná í peninga (Gripið fram í.) nema kannski með tekjuskatti, en lækkun hans er það sem ég er hvað mest á móti hér. Ég er nú venjulega hlynntur því en undir þessum kringumstæðum finnst mér það hreinlega ekki ábyrgt, með fullri virðingu fyrir öllum hlutaðeigandi.

Mig langar líka aðeins að nefna skoðanir mínar sem hafa mótast gagnvart þessu öllu saman, t.d. á Ríkisútvarpinu. Ríkisútvarpið er ein af mjög mörgum stofnunum og í stærri kantinum. Það fær 3,5 milljarða, skilst mér, af þessum 3,9 milljörðum sem innheimtir eru með svokölluðum nefskatti. Að mínu mati er nefskattur eitt mest óþolandi form skattheimtu sem til er. Hann tekur ekkert tillit til þess hvenær maður fær borgað eða hversu mikið eða þá hvernig fjárhagsstaða manns er. Ég man að þegar ég var ekki mikið yngri og fékk rukkun um nefskatt, þá þurfti ég að hringja í bankann eða fá lánað hjá einhverjum vini mínum eða eitthvað til þess að borga þennan skatt ef ég var ekki með fjármálin alveg á hreinu þann daginn, sem átti jú til að gerast fyrir ekki svo löngu síðan.

Alla vega þykir mér þegar kemur að nefskatti alveg sérstaklega óþægilegt, svo ekki sé meira sagt, að einungis hluti af honum, reyndar um 90% af honum en samt hluti af honum, renni til þeirrar stofnunar sem honum er ætlað að afla fé fyrir. Réttlætingin fyrir nefskattinum er auðvitað sú að við þurfum að hafa hér ríkisútvarp og það er svo sem enginn ágreiningur um það í sjálfu sér, ekki mikill alla vega. Þá þykir mér það — ja, ég vil ekki nota orðið „óheiðarleiki“ en samt eiginlega, að láta þá ekki stofnunina hafa allt það fé, vegna þess að til þess er féð tekið, til þess er nefskatturinn, annars á þetta bara að vera tekjuskattur og virðisaukaskattur eða annað sem við notum til af afla ríkinu tekna.

Það hefur reyndar leitt mig út í umræðu um markaðar tekjur sem ég hélt að ég hefði sterka skoðun á, en eftir nokkur góð samtöl við mjög svo háttvirta þingmenn eru markaðar tekjur eiginlega meira orðnar áhugamál hjá mér en skoðun. Ég hlakka til að kynnast þeim málaflokki betur á næsta ári, vonandi get ég þá komið með heilsteyptari skoðanir í þeim efnum á næsta ári.

Annað sem ég hef tekið eftir og kom mér svolítið á óvart, þó kannski ekki ofboðslega mikið, er hversu mikið er farið fram úr fjárlögum. Ég vissi það nú svo sem fyrir að iðulega væri farið fram úr fjárlögum. Síðan er reynt að laga þetta með fjáraukalögum, sem allir virðast vera sammála um að er heldur frumstæð leið og vissulega ekki heppileg. Það er kannski helst vegna þess sem ég er frekar skeptískur á að hallalaus fjárlög náist. Að því sögðu verð ég mjög ánægður ef þau nást með þeim fyrirvara að aðferðirnar sem maður þarf að beita til þess að ná þeim eru mér ekki að skapi, en þá vona ég að þær aðferðir verði í það minnsta til þess að við náum þá þessu ætlaða markmiði að skila hallalausum fjárlögum. En eins og hv. þm. Reykv. s., Guðlaugur Þór Þórðarson, sagði hérna áðan, ef ég náði tölunum rétt, þá fóru fjárlög 27% fram úr áætlun árið 2009, 11% árið 2010, 23% árið 2011, 30% árið 2012 og 38% núna árið 2013.

Þetta eru ekki margar tölur til þess að vinna úr tölfræðilega séð en mér sýnist að eftir að botninum var náð árið 2010 hafi þessi tala farið upp um 7 prósentustig milli 2011 og 2012 og síðan 8 prósentustig milli 2012 og 2013. Þá velti ég fyrir mér, að vísu sem nýliði, hvort ekki sé skynsamlegra að reyna að einbeita sér og einblína á það að fá fjárlög til þess að standast til þess að við getum losað okkur við þá ljótu hefð að nota fjáraukalög til þess að breiða yfir það sem mistekst, því að það er afskaplega ljótur siður. Mér skilst að þetta tíðkist ekki mjög víða annars staðar og þetta er eiginlega fíllinn í herberginu þegar kemur að fyrirvörum gagnvart fjárlögum. Við hljótum öll að vita að seinna meir munum við taka fyrir fjáraukalög og þá munum við aftur segja að við höfum ekki planað þetta nógu vel frá upphafi. Við skulum vona að það sé ekki tilfellið núna en ég get ekki að því gert að ég trúi því eiginlega ekki alveg að við náum þessu án fjáraukalaga.

Ég veit ekki hversu mikið maður á að hvetja fólk til að fara þær leiðir sem maður er ekki endilega sáttur við, en ég er ofboðslega hlynntur því að ef við þurfum að fara þá leið að fara í þennan erfiða niðurskurð o.s.frv. þá ættum við alla vega að reyna að ná markmiðinu. Þess vegna vil ég heita á hæstv. ríkisstjórn; nái hún þessu markmiði skal ég persónulega gefa henni 100 þús. milljarða Simbabve-dollara, sem ég er með hér og heiti hér með á hæstv. ríkisstjórn. Ég treysti því að hún geti skipt þessum fjárhæðum bróðurlega sín á milli.

En það er sko nóg um að tala hér.

Það er eitt sem ég hef velt mikið fyrir mér í gegnum tíðina, ekki bara eftir að ég kom á þing heldur í raun meira áður en ég kom inn á þing, því miður, því að maður hefur ekki tíma til þess að skoða þessi mál alveg í þaula; mér finnst vanta áherslu á þátttöku almennings í fjárlagagerð. Þá á ég ekki endilega við þjóðaratkvæðagreiðslur um fjárlög eða kosningar eða atkvæðagreiðslur yfir höfuð heldur fyrst og fremst upplýsingar þannig að almenningur eigi auðveldara með að gera sér grein fyrir fjárlögunum og gera sér grein fyrir því hvert peningarnir fara. Þetta er svona almennur gegnsæisvinkill. En ég held að núna sérstaklega sé tækifæri til þess að gera ofboðslega mikið af góðum hlutum þar, vegna þess að við höfum jú tölvutæknina og internetið o.s.frv.

Ég tek eftir því að hjá ríkinu og á Alþingi er auðvitað verið að taka upp tölvutækni og verið er að birta gögn á opnum hráum sniðum sem aðrir geta nýtt. Það er vel, það er frábært og við eigum að halda því áfram. En við notum samt pappír ofboðslega mikið og við notum skjöl ofboðslega mikið sem ekki er auðvelt að nota til gagnavinnslu. Ég get ekki með auðveldum hætti tekið þau gögn sem ég hef fengið hér sem þingmaður og látið næsta tölvunörd sem ég þekki hafa þau og beðið hann um að finna út úr öllu sem mig mundi langa til að komast að. Ég get það einfaldlega ekki vegna þess að gögnin eru ekki á því sniði. Það eru engar góðar ástæður fyrir því, það þarf kannski bara að leggja áherslu á það og ég hef fulla trú á því að allir hafi hug á því varðandi þetta enda hef ég ekki orðið var við það nýlega að fólk sé beinlínis á móti gegnsæi eða á móti því að nota upplýsingatæknina. Það er miklu frekar þannig að það vanti fókus og athygli.

Ég lofaði því í upphafi ræðu minnar að hrósa aðeins. Ég tók eftir því í nefndaráliti frá meiri hlutanum að Persónuvernd fær hér aukaframlag upp á 28 milljónir. Það gleður mig mikið. Það er kannski ekki há upphæð, það er sjálfsagt nóg af fólki í þessum sal sem er með hærri lán en þetta en þetta er þó nokkur peningur fyrir Persónuvernd í þeirri stöðu sem hún er í núna. Það gleður mig ofboðslega mikið að á þetta hafi verið hlustað, væntanlega vegna Vodafone-lekans nú nýlega sem var slæmur og er þá ástæða fyrir góðri aðgerð. Vil ég þakka sérstaklega fyrir það og eins fyrir málefnalega yfirferð hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur, sem talaði hér áðan.

Annað sem ég hef tekið eftir er að rekstrarlíkönin víða í kerfinu virðast ekki mjög nákvæm og ekki mjög áreiðanleg. Fólk virðist ekki upplifa það þannig að það geti treyst þessum líkönum eða að það hafi mikinn aðgang að þeim. Það finnst mér persónulega vera svolítið áhyggjuefni vegna þess að ég hefði haldið að sem þingmaður eða jafnvel bara sem borgari gæti ég flett upp reiknilíkönum og sett inn hinar og þessar forsendur og reynt að finna eitthvað nýtt út úr því, en það hefur þvert á móti reynst frekar erfitt fyrir fólk að fá aðgang að þessum kerfum ef það er þá mögulegt á annað borð. Það er nokkuð sem við gætum unnið að, þar held ég að sé hægt að leysa úr læðingi almenningsafl, þar er hægt að virkja almenning.

Það er eitt svolítið skemmtilegt við almenning, það er að hann á það til að gera hlutina sjálfur. Þegar aðgangur var opnaður að gögnum á síðasta kjörtímabili á gogn.island.is, þökk sé hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur og fleirum, tók almenningur sig til og fór að nýta þau gögn. Núna er t.d. mjög auðvelt að átta sig betur á umfangi ríkisútgjalda með því að fara inn á hvertferskatturinn.is. Það var ekki hægt fyrir 20, 30 árum eða alla vega ekki auðveldlega. Núna er það hægt og því væri óskandi að meiri fókus yrði settur á það. Það er hægt að virkja lýðræðið með öðrum hætti en endalausum þjóðaratkvæðagreiðslum eða þess háttar.

Það er eitt annað sem mig langar rosalega til að nefna, það er að við megum gleyma því hvað við horfðum framan í hér eftir hrun. Ég vil reyna að forðast að tala um hvað þessi ríkisstjórn gerði eða seinasta ríkisstjórnin eða ríkisstjórnin þar á undan. Mér finnst stundum eins og Íslendingar upp til hópa, ekki bara hv. þingmenn heldur bara Íslendingar almennt, gleymi því hvað það var mikið hyldýpi sem við störðum ofan í á sínum tíma. Ég hefði ekki trúað því á þeim tíma að Ísland mundi standa svo vel eins og það gerir í dag, ég taldi mig þó skilja peningakerfið betur en meðalmaður á þeim tíma, sem reyndar er ekkert sérstakt afrek ef út í það er farið. En mér finnst mikilvægt að við höfum það í huga þegar við ætlum að karpa um það hvað sé hverjum að kenna því að að við horfum núna, í það minnsta hugsanlega, fram á hallalaus fjárlög eftir fimm ár finnst mér alveg ótrúlegt. Ég hefði ekki trúað því, ég hefði hlegið — eða kannski grátið — á sínum tíma ef einhver hefði spáð því að það tæki svona stuttan tíma að ná þó þetta langt. Mér þykir það alveg þess virði að hrósa fyrir það, ekki bara ríkisstjórninni heldur bara tilverunni og lífinu og heiminum eða guði, ef fólk trúir á þess lags.

Í umræðunni upp á síðkastið hefur mikið verið talað um svokallaðan forsendubrest og ég hef í meinhæðni minni stundum spurt: Hvaða forsendur voru það sem brustu? Vissi fólk ekki að það væri verðbólga á Íslandi? Vissi fólk ekki að lán þess væru verðtryggð? Vissi fólk ekki að efnahagskerfi ættu það til að hrynja af og til? Trúði fólkið ekki á kreppur? Ég er farinn að hallast að hinu síðastnefnda; fólk trúði ekki á kreppur. Fólk trúði því að þetta væri bara eins gott og það gæti orðið og að 2007 væri normið, þannig ætti heimurinn að vera, þannig væri eðlilegt að hann væri, sem var auðvitað ekki raunin.

Ég veit að hæstv. ríkisstjórn hefur talað um forsendubrestinn, sérstaklega verðbólguskotið sem kom hér rétt eftir hrun. Gott og vel, ég er á því að orð eigi að þýða það sem fólk ákveður að þau þýði, þau eru nú ekki fullkomnari en það. En þá vil ég biðja hæstvirta Íslendinga, hv. þingmenn og alla aðra að þegar við höldum áfram og fáum skuldaleiðréttingu, sem ég vona að heppnist vel, eftir aðgerðir ríkisstjórnarinnar þá horfum við alltaf framan í það sem einkennir íslenskan efnahag og það er verðbólgan. Með verðtryggingu eða án verðtryggingar horfum við alltaf á verðbólguna. Og ég hef velt því fyrir mér bæði hér í pontu og í lestri og í samtölum og svoleiðis: Hvaðan er verðbólgan komin?

Við fáum alltaf reglulega þessi verðbólguskot. Kannski er það gjaldmiðillinn, vissulega er það stundum málið, síðast bar gjaldmiðillinn einhverja ábyrgð á verðbólguskoti vegna þess að hann féll og þá hækkaði verð á erlendum vörum og flest það sem við erum með hér er nú frá útlöndum þannig að maður skilur það. En verðbólgan er viðvarandi, hún er ofboðslega sterkur þáttur í íslensku efnahagslífi. Ég hef sagt það, bæði fyrir hrun og eftir hrun, að í raun og veru sé eina leiðin fyrir mann sem einstakling til þess að sigrast á verðbólgunni að passa að maður hækki áfram í launum. Það er í raun óðs manns æði að ætla að halda sömu launum, sama hversu há þau eru, alla vega miðað við meðallaun, og ætlast til þess að verðbólgan éti það ekki upp með tímanum, því að hún kemur og við ættum að vita það.

Ég er ekki alveg með það 100% á hreinu hvers vegna verðbólgan er eða hvað beri að gera varðandi hana, en ég skynja ákveðið vonleysi gagnvart vandamálinu frá ráðamönnum og fleirum, að verðbólgan sé bara hluti af íslensku efnahagskerfi; við erum það lítil þjóð o.s.frv. Gott og vel. Þá langar mig að biðja hæstvirta Íslendinga að spyrja um verðið næst þegar þeir kaupa eitthvað og ef þeim blöskrar það þá hætti þeir við. Ég held að það beri pínulitla ábyrgð á verðbólgunni hérna að við höfum ekki sterkt verðskyn. Það held ég að sé líka ákveðinn vítahringur. Við höfum ekki verðskyn, þá spyrjum við ekki um verðið og sá mekanismi — með leyfi forseta, ég man ekki eftir íslenska orðinu í augnablikinu, því miður — að verð eigi að afmarkast af eftirspurn og framboði, er eiginlega hálfbilaður vegna þess að við erum ekki nógu meðvituð um hvað við eyðum peningunum í. Ég held að það sé nokkuð sem við þurfum að vinna í, ekki sem þing heldur sem þjóð.

Síðast en ekki síst vil ég biðja fólk um að hugsa sig tvisvar um áður en það eyðir peningum í eitthvað sem það þarf kannski ekki. Það er eitt að vilja, annað að þurfa. Ég lýk ræðu minni með þeim orðum og óska hæstv. ríkisstjórn góðs gengis.