143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:59]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri að við hv. þingmaður erum sammála um að gleðilegt sé að við skulum geta stefnt að hallalausum fjárlögum núna. Ég er sammála honum í því að það er sérstaklega ánægjulegt að það hefur tekist á þeim tíma sem kominn er. Ég er líka sammála honum í því að fáránlegt væri að þakka fyrrverandi ríkisstjórn það sérstaklega þótt hún hafi náttúrlega dregið vagninn í ríkisfjármálum og öðru. Auðvitað er það öllu fólki í landinu að þakka að tekist hefur verið á við erfiðleikana. Ég er sammála þingmanninum, ég hefði varla trúað því fyrir fimm árum að við yrðum komin hingað núna.

Hann minntist nokkuð á upplýsingarnar sem við höfum hérna. Þegar ég hef talað um fjárlögin núna hef ég verið eins og biluð plata og talað um að maður þurfi að fletta til baka og skilji þetta ekki og reyni finna þetta og hitt. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann hefur mikla þekkingu á þessu: Væri tiltölulega — og hvað þýðir það? Hann getur metið hvað það þýðir. Væri auðvelt að koma til dæmis fjárlögunum í betra horf þannig að þau væru aðeins gagnsærri en þau eru? Hann minntist líka á reiknilíkön, að fólk gæti farið inn í þau. Ég verð að játa vankunnáttu mína í því. Hvað á hann nákvæmlega við með því? Er hann þá sérstaklega að tala um til dæmis töflur og annað sem er í fjárlögunum? Að lokum: Heldur hann að ef fjárlögin væru (Forseti hringir.) betur fram sett þannig að auðveldara væri að nálgast þau, að fólk (Forseti hringir.) almennt hefði meiri áhuga á þeim en það hefur?