143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir spurningarnar. Ég þori ekki að fullyrða nákvæmlega enn sem komið er hvað þurfi að gera við fjárlögin til að gera þau sem aðgengilegust. En ég skal kannski svara þeirri spurningu betur á næsta ári þegar ég hef farið í gegnum þessa eldraun einu sinni, að pæla í fjárlögum, og vissulega eftir tvö ár og algjörlega eftir þrjú. Ég þori bara ekki að fullyrða það hér og nú, ég þyrfti að hafa meiri reynslu til að meta það.

Svo er hitt, að það er kannski ekki þingmannsstarf að meta hversu mikið mál það væri. Það væri nær lagi að ráða eitthvert sérfræðingatreymi til að áætla það. Því meira sem ég læri um fjárlögin, því betur skil ég hvað ég skil þau lítið. Það er alltaf eitthvað nýtt að koma fram sem ég hafði ekki pælt í, sérstaklega núna nýlega með markaðar tekjur sem ég taldi mig hafa bestu skoðunina á, en nú er ég ekki 100% viss lengur vegna þess að ég missti af einhverju sem ég skildi ekki þar áður.

Hvað varðar reiknilíkönin og þess háttar eru þau tvö sem ég hef rekist á hér á þingi. Það er reiknilíkanið sem notað er í heilbrigðiskerfinu og reiknilíkan sem er notað fyrir menntaskóla. Þetta kom fram á fundi háttvirts Menntaskólans í Reykjavík þegar fulltrúar hans komu á fund hv. allsherjar- og menntamálanefndar og útskýrðu áhyggjur sínar og töluðu um að þau hefðu ekki einu sinni aðgang að reiknilíkaninu sem var notað til að reikna út fjárframlög til MR. Þau höfðu þó spurst fyrir um nokkrar forsendur og höfðu einhverja hugmynd um það. Ég hefði kosið að þau gætu flett þessu upp á netinu og séð þá hvað vantaði og hvað vantaði ekki, eða niðurhalað einhverjum hugbúnaði, hvernig sem það væri útfært. Það er svo sem aukaatriði hvernig það er útfært nákvæmlega, svo lengi sem það er aðgengilegt öllum, svo lengi sem fókus er á því.

Nú man ég hreinlega ekki seinustu spurninguna. Þær voru þrjár, er það ekki? Eða voru það bara þessar tvær? Ég er að minnsta kosti búinn að svara tveimur. (VBj: Nei, ég var að spyrja hvort …) (Forseti hringir.) Já! Ég held það, ég held að sagan hafi meira að segja sýnt það vegna þess að um leið og gögnin voru opnuð á seinasta kjörtímabili, á gogn.island.is, varð strax til áhugi og núna er fólk að nota þær upplýsingar. Ég tel því söguna sýna það alveg ótvírætt að fólk hafi meiri áhuga á því og betra tækifæri til að nýta þau gögn þannig að enn aðrir hefðu áhuga. (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti verður að biðjast velvirðingar á að tímastjórnin fór hér nokkuð úr skorðum. Við sáum til þess að hv. ræðumaður fékk þann tíma til svara sem hann þurfti og reyndar rúmlega það.)