143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef verið eitthvað utan við mig því að ég veit núna þegar hann talar um reiknilíkönin eða rekstrarlíkönin hvað hann á við. Ég er sammála honum að það er náttúrlega mjög heppilegt og getur verið ágætt að hafa svona reiknilíkön þegar fjármunum er úthlutað þannig að stofnanir viti nokkurn veginn við hverju þær megi búast, en stofnanirnar þurfa náttúrlega að þekkja nokkuð inn á það.

Hins vegar kynntist ég svona reiknilíkönum í Háskóla Íslands þegar ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera þar í háskólaráði og þá fannst mér eins og að líkanið hefði ekkert breyst í mjög langan tíma. Það vakti mig til umhugsunar. Það er mjög gott að búa til reiknilíkan og vita hverjar forsendurnar eru, þá átti að fá einhverja peninga fyrir þessa tegund af nemendum og aðra peninga fyrir hina tegundina því að þeir eru misjafnlega dýrir. Svo fær maður þetta fyrir rannsóknir, eitthvað svona. En þarf ekki að endurskoða svona líkön með vissu millibili? Þá er ég ekki að tala um á fimm ára fresti, þarf ekki að fylgjast með? Það er ekki hægt að láta bara einhver líkön koma í staðinn fyrir það að vega og meta. Eða er það? Er hægt að nota líkön til að úthluta kannski 80% af því sem er til ráðstöfunar, t.d. til háskóla, og svo 20% í það sem við notum okkar heila en ekki tilbúinn heila?