143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:08]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins til að koma inn á heilbrigðismálin sem hv. þingmaður nefndi snemma í ræðu sinni og áhyggjur af þeim. Í fjárlagafrumvarpinu er eins og mikið hefur verið rætt um lagt til að innheimt verði sérstakt gjald fyrir hvern legudag á sjúkrahúsi, eins konar dvalargjald, til að mæta einhvers konar sjúkrahótelskostnaði spítalans. Þetta hefur mikið verið gagnrýnt eins og við þekkjum og hefur orðið til þess að efnahags- og viðskiptanefnd hefur gert tillögu um breytingu á lögunum um sjúkratryggingar sem felur það í sér að það komi heimild til að taka slíkt gjald en það verði komugjald í staðinn fyrir legudagagjald.

Nú langar mig að heyra frá hv. þingmanni hvort hann hefur einhverjar upplýsingar um það hvaða áhrif þessi breyting kann að hafa. Hefur þetta einhver áhrif á þá heildarupphæð sem ætlast er til að sjúkrastofnanirnar innheimti í gjöld af sjúklingum? Er heildargjaldtakan sú sama eftir sem áður frá frumvarpinu? Miðað við þær breytingarhugmyndir sem hafa komið fram í meðferð málsins langar mig að heyra hvort þingmaðurinn hefur þær upplýsingar úr sinni vinnu. Ég hygg að hann sé áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd og kunni að hafa orðið þess áskynja með einhverjum hætti.

Hvaða sjónarmið hefur hann varðandi þessa gjaldtöku almennt og áhrif hennar fyrir þá sem þurfa að nýta sér þjónustu sjúkrastofnana?