143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Svarið er í stuttu máli: Nei, ég hef ekki skoðað það sérstaklega en ég vænti þess að upphæðin sem komi inn í ríkissjóð sé tiltölulega sambærileg því sem upprunalega var markmiðið að hala inn. Ég geri ráð fyrir því. Eins og ég segi hef ég ekki rannsakað það sérstaklega. Svo erum við píratar þrír þingmenn að díla við níu nefndir þannig að maður kemst ekki alltaf í áheyrnina í fjárlaganefnd, því miður, sérstaklega þegar mál eru í hv. velferðarnefnd sem krefjast athygli út frá sjónarmiðum um friðhelgi einkalífs o.fl. Ég hef ekki getað lagst yfir þessi mál jafn mikið og ég hefði kannski viljað.

Svona almennt séð, hvað varðar sjónarmið mín gagnvart því að rukka sjúklinga, er ég á móti því. Mér finnst það vægast sagt óþægilegt, mér finnst siðferðislega vafasamt að rukka eitthvað slíkt. Ég er á móti því.

Svo er hitt sem kemur alltaf í andlitið á manni, sem er bölvanleg staða ríkissjóðs. Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan hefur stærðfræðin ekki tilfinningar, tölurnar hafa ekki samkennd. Þetta er nokkuð sem ég á stundum í vandræðum með að mynda mér skoðun á þegar kemur að fjárlögum. En eins og ég nefndi þá er ég, þegar kemur að legugjaldinu og nýjum gjöldum og nýjum sköttum og því um líku, alltaf sérstaklega á varðbergi vegna þess að það er svo bölvanlega erfitt að losna við slíkt þegar því hefur verið komið á. Fé er jú fíkn, peningar eru vanabindandi hvernig sem þeir koma inn.