143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:12]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir. Ég deili algerlega afstöðu hans til þeirra gjalda í heilbrigðisþjónustunni sem ríkisstjórnin leggur upp með.

Satt að segja hefði maður talið eftir alla umræðuna hér í haust, eftir að fjárlagafrumvarpið kom fram, að ríkisstjórnin ætlaði sér að falla frá hugmyndinni um legugjöld. En árangurinn er sá að því hefur verið breytt í einhvers konar komugjöld. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir því að innheimt yrði 1.200 kr. gjald fyrir hvern legudag. Síðan hefur það verið gagnrýnt hér í umræðum, m.a. í efnahags- og viðskiptanefnd en meiri hluti hennar gerir tillögu til breytingar á sjúkratryggingalögunum, að ekki komi fram hvað gjaldið eigi að vera hátt.

Nú vill svo til að ég hef hér undir höndum svar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá mér á þskj. 169 um áætlaðar tekjur af legugjöldum. Þar kemur fram að áætlaðar tekjur séu 289,4 milljónir eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Þær verða væntanlega óbreyttar. Gert er ráð fyrir því að legudagar verði 244.747 og að áætlaður fjöldi greiðenda verði 27–30 þús. manns, sem sagt hver lega. En nú á að breyta legugjaldinu yfir í komugjald sem er þá hvert skipti og þá reiknum við meðaltalið út frá upplýsingum heilbrigðisráðuneytisins sjálfs og mun hver koma þá kosta 10–11 þús. kr. að meðaltali.

Þetta er mikilvægt innlegg í svari heilbrigðisráðuneytisins við umræddri fyrirspurn í þá umræðu sem hefur verið um þetta mál. Það er gert ráð fyrir því í breytingartillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að lagt verði lægra gjald á eldri borgara og börn þannig að aðrir borga þá hærra gjald sem gæti þá kannski verið — hvað, 15–20 þús. kr. skiptið?