143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:16]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að hér fer fram 2. umr. um fjárlagafrumvarpið og það hefur ekki farið mikið fyrir því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sem flutti þetta frumvarp, hafi verið viðstaddur þessa umræðu. Vissulega hafa fulltrúar stjórnarflokkanna í fjárlaganefnd verið hér og tekið þátt í umræðu og það ber að þakka, en ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst eiginlega lágmarkskurteisi að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra láti sjá sig eitthvað í umræðunni og fylgist þá með henni.

Að vísu hefur verið upplýst að fjárlagafrumvarpið hafi tekið svo gríðarlegum breytingum í meðferð fjárlaganefndar að það má kannski velta fyrir sér hvort þetta sé lengur frumvarp fjármálaráðherra eða hvort þetta sé fjárlagafrumvarp hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Látum það liggja á milli hluta. Mér finnst eðlilegt að hæstv. forseti kanni hvort fjármálaráðherra getur kannski verið eitthvað viðstaddur þessa umræðu þegar líður á kvöldið.