143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:00]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðuna fyrir því að ég sagðist ekki ætla að ræða þetta hérna má kalla tímastjórnun. Ef ég hefði rætt það mikið hefði ég ekki komið orðum að öðru sem ég ætlaði að tala um í ræðutíma mínum.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni að það hlýtur að vera þannig að hópuppsagnir fari eftir starfsaldri. Það er alveg klárt, ef þetta væri ríkisfyrirtæki bæri að fara eftir starfsaldri. Þar er þetta alveg klárt, en Ríkisútvarpið er ohf. og getur því farið sínar leiðir. Ég teldi það eðlilegt, meira að segja þegar einkafyrirtæki þurfa að segja upp gera þau það yfirleitt þannig. Þetta er ekki lagaskylda en ég er hjartanlega sammála því að beita ætti þeirri aðferð.

Ef ég reyni að vera svolítið skilningsrík held ég að það hafi runnið á stjórnendur eitthvert æði og þeir haldið að þetta væri eins og í bönkunum. Ef maður segir upp í fjármálafyrirtæki þarf fólk að fara. Það þarf að loka tölvunum sínum. Það er út af hættu á að það búi yfir einhverjum upplýsingum og svoleiðis. Þetta er viðurkennd aðferð í fjármálastofnunum en að yfirfæra hana á Ríkisútvarpið, ég tala nú ekki um fólk sem er búið að vera trútt og flott í mörg ár og vinna á gömlu gufunni, að það fái ekki að ljúka þáttunum sínum og þar fram eftir götunum er alveg út í hött. Á hinn bóginn getur líka verið gott fyrir þetta fólk að geta farið þegar það hefur lokið þeim þætti sem það er með og þurfa ekki að hanga í þrjá mánuði.