143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:40]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við erum hér á fyrsta degi 2. umr. um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 og nú þegar hafa talsmenn stjórnmálaflokkanna í fjárlaganefnd gert grein fyrir grundvallaratriðum sínum við fjárlagafrumvarpið og breytingartillögum sem fyrir liggja.

Ég hef hugsað mér að fara í nokkra afmarkaða þætti málsins. Það gefur augaleið að í einni 40 mínútna ræðu er ekki hægt að fara yfir allt það sem væri tilefni til að ræða í fjárlagafrumvarpinu þannig að maður verður aðeins að velja og hafna í því efni.

Mig langar að byrja á að fjalla aðeins um aðdraganda málsins. Það varð nokkur umræða um það á sumarþingi þegar forustumenn ríkisstjórnarflokkanna lögðu til breytingu á þingskapalögunum með það í huga að fresta setningu Alþingis um þrjár vikur, til 1. október. Ein meginröksemdin var sú að ný ríkisstjórn þyrfti rýmri tíma til að undirbúa fjárlagafrumvarp. Þessi breyting á þingsköpunum var svo samþykkt, þó þannig að breytingin gilti aðeins í þetta eina skipti.

Ég var afskaplega andvígur þeirri breytingu á þingskapalögunum, hafði sjálfur veitt forustu þingskapanefnd á síðasta kjörtímabili sem beitti sér fyrir þeim breytingum að þingsetningunni var flýtt og hún færð fram í september. Meginrökin fyrir þeirri breytingu voru ekki síst að gefa þinginu rýmri tíma til vinnu við fjárlagafrumvarp. Ég held að reynslan hafi sýnt meðan þetta var við lýði að þinginu veitir ekkert af þeim tíma. Vonandi kemur þingið á næsta ári aftur saman í annarri viku septembermánaðar og fjárlagafrumvarp komi þar með fram þremur vikum fyrr en núna. Það var varað mjög við þessu hér í sumar en menn hlustuðu ekki á þau aðvörunarorð. Vitaskuld er það að koma í ljós núna, eins og við mátti búast, að tíminn fyrir þingið til að fjalla um fjárlagafrumvarpið er einfaldlega of knappur, og því knappari sem breytingarnar sem fjárlagafrumvarpið tekur í þinginu eru meiri og róttækari. Undirbúningur allra breytinga tekur talsverðan tíma, það þarf að rökstyðja þær o.s.frv.

Samkvæmt starfsáætlun þingsins átti 2. umr. að hefjast á þriðjudag í síðustu viku en henni hefur verið frestað núna í tvígang. Eins og ég segi er komið í ljós að það var misráðið að fresta setningu Alþingis í haust og taka þann dýrmæta tíma af þinginu og fjárlaganefnd til að fjalla um málið. 2. umr. um fjárlagafrumvarp tekur iðulega nokkuð langan tíma. Ég hygg að í fyrra hafi 2. umr. um fjárlagafrumvarp hafist á fimmtudegi og lokið á miðvikudegi, hún hafi staðið sex daga í heildina. Síðan á frumvarpið eftir að ganga aftur til fjárlaganefndar. Fjárlagafrumvarp tekur alltaf talsverðum breytingum milli 2. og 3. umr. ólíkt mörgum öðrum frumvörpum sem ganga yfirleitt ekki til nefndar eftir 2. umr. þannig að bersýnilega er talsverð vinna eftir og enn er verið að koma með breytingartillögur inn í 2. umr. Bara rétt fyrir kvöldmatarhlé var til dæmis lesin útbýting á tveimur nýjum breytingartillögum við fjárlagafrumvarpið frá stjórnarþingmönnum, hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni og hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni, sem koma þá núna inn í þessa umræðu til viðbótar. Menn hafa eðli málsins samkvæmt ekki haft svigrúm til að kynna sér neitt hvað felst í þeim í raun og veru. En allt um það í bili.

Ég hef hug á því að fara almennt yfir mikilvægi fjárlagafrumvarps og hvaða tæki það er í efnahagsstjórn hverrar ríkisstjórnar. Það er engum blöðum um það að fletta að fjárlagafrumvarpið er eitt allra mikilvægasta þingmálið hverju sinni, frá hvaða ríkisstjórn sem er, af því að segja má að í því birtist sú meginstefna sem ríkisstjórnin vill hafa í efnahagsmálum þjóðarinnar, þar með hvernig samfélag og samfélagsgerð hún sér fyrir sér og hvaða áhrif þær ákvarðanir sem felast í fjárlagafrumvarpi á tekju-, gjalda-, skuldahlið o.s.frv. hafa á samfélagið í heild sinni. Þess vegna skiptir mjög miklu máli hvaða áherslur birtast í fjárlagafrumvarpinu.

Jafnvel þótt fjárlagafrumvarpið sé aðeins til eins árs í senn hefur það engu að síður áhrif til lengri tíma. Ákvarðanir sem teknar eru á einu ári geta haft áhrif áfram inn í næstu ár þar á eftir þannig að þó að frumvarpið sjálft með þeim tölum sem þar liggja á bak við sé aðeins fyrir fjárlagaárið sjálft geta hinar efnislegu ákvarðanir sem felast í fjárlagafrumvarpinu haft áhrif til lengri tíma.

Við Íslendingar höfum glímt við mikla erfiðleika í efnahagsmálum okkar eftir efnahagshrunið 2008. Á þeim tímapunkti var ríkissjóður sem betur fer ekki skuldugur og átti þar af leiðandi kannski auðveldara með að taka á sig það högg sem fólst í efnahagshruninu en engu að síður var það högg geysilega mikið. Þegar þess er gætt að á árunum 2008 og 2009 voru heildartekjur ríkissjóðs í kringum 500 milljarðar var höggið sem varð á árinu 2009 með rúmlega 200 milljarða kr. halla geysilega mikið, hallinn varð 40% af tekjum ríkisins. Það er áfall sem við höfum ekki séð hér áður þannig að það hlaut að verða sameiginlegt verkefni samfélagsins alls að takast á við þá miklu erfiðleika. Þeir komu við alla og það var verkefni þeirrar ríkisstjórnar sem tók við í ársbyrjun 2009 að vinna okkur sameiginlega út úr þessum efnahagsvanda. Að sjálfsögðu hafa langflestir lagt mikið á sig í því efni, atvinnulífið, heimilin í landinu, sveitarfélögin o.s.frv., fyrir utan ríkissjóð. Það gat aldrei orðið öðruvísi með svona gríðarlegt áfall en að allir legðust á eitt og sameinuðust um að dreifa byrðunum af eins mikilli sanngirni og hægt var.

Það er þekkt í fræðunum að þegar halli er á ríkissjóði hafa menn í meginatriðum þrjár leiðir til að takast á við hann; auka tekjur, draga úr útgjöldum eða auka skuldsetningu. Á þeim tíma, þegar þetta áfall dundi hér yfir, var lokað á alla lánafyrirgreiðslu til Íslands eins og menn muna. Lánamöguleikinn var ekki til staðar til viðbótar við það sem ríkið þurfti að taka á sig vegna gjaldþrots Seðlabankans eða hins mikla taps á Seðlabankanum og áfallsins að öðru leyti. Með minnkandi tekjum og auknum útgjöldum var það ekki í boði þannig að þetta mikla gat upp á 200 milljarða kr. á árinu 2009 var ekki hægt að brúa öðruvísi en með því að auka tekjur og/eða draga úr útgjöldum. Niðurstaða þáverandi stjórnarflokka var að blanda þessum leiðum saman, bæði auka tekjur og draga úr útgjöldum.

Í sjálfu sér held ég eftir á að hyggja að ekki sé mikill ágreiningur um að það var skynsamleg leið. Það hefði verið ógerningur að brúa þetta bil allt með auknum tekjum og aukinni skattheimtu. Það hefði líka verið ógerningur að brúa það með tómum niðurskurði. Ég held að sú leið sem þarna var valin hafi verið sú eina sem var raunverulega í boði, burt séð frá því hvaða pólitísku skoðun menn hafa á því við kjöraðstæður hvernig á að haga ríkisrekstrinum. Við vorum þá einfaldlega ekki í stöðu til að geta valið svo mikið úr. En áherslurnar sem þáverandi ríkisstjórn lagði engu að síður varðandi tekjuaukningu og niðurskurð í útgjöldum voru félagslegar. Það var reynt að tryggja að breytingar á skattkerfinu yrðu réttlátar. Það var settur á þrepaskiptur tekjuskattur til að geta hlíft þeim hópum sem hafa lægstar tekjurnar og auka þá frekar tekjuskattinn á þeim sem höfðu hærri tekjur. Það var tekinn upp auðlegðarskattur og fjármagnstekjur hækkaðar en þó sett frítekjumark í fjármagnstekjurnar sem ekki hafði verið áður til að hlífa venjulegum sparnaði. Hið sama má segja um samdráttinn í útgjöldum. Þar var gerð minni krafa um hagræðingu eða niðurskurð eða samdrátt í tilteknum málaflokkum, ekki síst í velferðarmálum, heilbrigðismálum, menntamálum og löggæslunni.

Þegar yfir þessa mynd er horft held ég að ekki verði hægt að segja annað en að það að ná hallanum á ríkissjóði úr rúmlega 200 milljörðum niður í 19–20 milljarða á þessu ári sé ágætt. Þótt maður hefði viljað ná meiri árangri á þessu ári, og það var vissulega stefnt að því, er þessi árangur engu að síður mjög góður.

Það kom aðeins upp í umræðunni um fjáraukalög að það væri plagsiður hér á landi að það væru mikil frávik frá samþykktum fjárlögum hverju sinni sem birtust í fjáraukalögum. Í frumvarpinu til fjáraukalaga fyrir árið 2013 sem hér hefur verið til umfjöllunar er talað um að á árabilinu 1998–2008 hafi meðaltal frávika í fjáraukalögum verið 5% af frumútgjöldum fjárlaganna, á tíu ára tímabili, og ekki síst síðari hluti þessa tíma var oft kenndur við góðæri. Á árabilinu 2009–2013, þ.e. eftir hrun og á tíma síðustu ríkisstjórnar, var meðaltal frávika frá samþykktum fjárlögum hins vegar 1,5%. Það er alltaf bagalegt að vera með viðbótarútgjöld í fjáraukalögum en kannski var það hið aukna aðhald í ríkisfjármálum í kjölfar hrunsins sem gerði þetta bæði nauðsynlegt en gerlegt líka og vonandi verður ekki hlaupið frá þessu markmiði.

Það hefur verið farið yfir meginatriðin eins og þau birtast í nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar, hv. þm. Bjarkeyjar Gunnarsdóttur, þau sjónarmið og þá sýn sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sett fram í tengslum við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2014. Við erum að sjálfsögðu þeirrar skoðunar að það þurfi að gæta ýtrustu varfærni í ríkisfjármálunum, þurfi að tryggja jafnvægi. Hagfræðin sem fræðigrein geymir ýmsar fínar kenningar um hvernig á að haga rekstri ríkissjóðs við samdrátt í efnahagslífinu og aftur á móti hvernig á að haga ríkisfjármálunum þegar vel gengur. Þær kenningar eru kenndar við breska hagfræðinginn John Maynard Keynes — hann var reyndar ekki hagfræðingur, en það er annað mál, hann var samt háskólakennari í hagfræði — og meginlögmálið er að ríkið eigi að reka aðhaldssama ríkisfjármálastefnu þegar vel gengur í efnahagslífinu, mikill uppgangur er, og svo öfugt, þegar illa gengur, samdráttur, þá þarf ríkið að koma inn með meiri þunga. Þetta er fyrst og fremst hugsað til að draga úr sveiflum. Þetta er stefna sem Roosevelt fylgdi strax í kjölfar efnahagskreppunnar í Bandaríkjunum 1929 og varð þar sennilega til þess að bjarga því sem bjargað varð til lengri tíma litið.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að almennt reynum við að halda þessari meginreglu. Þess vegna má segja að þó að það sé að sjálfsögðu markmið að skila afgangi í ríkisfjármálum á fjárlögum í því augnamiði að geta greitt niður skuldir og dregið þar með úr vaxtagjöldum til framtíðar, og ég er algjörlega sammála því markmiði, má ekki setja málin þannig upp að það verði einhver kennisetning sem er algerlega ófrávíkjanleg hvernig svo sem að öðru leyti árar í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þarna er heildarsamhengi sem þarf að hafa í huga.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði teljum að í því meginstefi sem má greina í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014 af hálfu núverandi ríkisstjórnar sé horfið frá þeirri braut sem við hefðum viljað vera á. Við teljum að nú sé verið að reyna að vinda ofan af skattkerfisbreytingum, það hafi verið boðað þó að ekki sé allt komið fram í þeim efnum. Hæstv. fjármálaráðherra hefur að vísu sagt að hann telji að það eigi að fara í heildarendurskoðun á skattkerfinu. Við teljum þau áform að lækka tekjuskattsprósentuna í milliskattsþrepinu óskynsamlega við þessar aðstæður. Það er ekki vegna þess að við getum ekki hugsað okkur að fólk sem er á því tekjubili greiði eitthvað aðeins minni skatt, en við teljum að það sé óskynsamlegt. Miðað við þær aðstæður sem eru enn þá í efnahagslífinu og fjármálum ríkisins er óskynsamlegt að gefa eftir þær tekjur alveg með sama hætti og við töldum afar óskynsamlegt að draga úr veiðigjaldinu eins og gert var með samþykkt hér í vor.

Nú hefur það verið sagt ítrekað í þessari umræðu að það hafi einfaldlega verið vegna þess að óbreytt lög hefðu ekki skilað neinu í veiðigjaldi því að ekki hefði verið hægt að innheimta það og þess vegna hafi orðið að gera þær breytingar sem gerðar voru. Ég er ósammála þessu og ég hafna því algerlega að sýnt hafi verið fram á þetta eins og sagt hefur verið ítrekað í umræðunni. Það byggi ég á því að það sem kom fram var einfaldlega að Hagstofan teldi sig ekki hafa lagaheimild til að veita þær nauðsynlegu upplýsingar sem veiðigjaldsnefndin þurfti á að halda til útreiknings gjaldsins. Það var mergurinn málsins og þá hljóta menn að spyrja: Hvernig bregðast menn við því? Bregðast menn við því með þeirri aðferð sem ríkisstjórnin gerði eða með því að skjóta nauðsynlegri lagastoð undir Hagstofuna til að hún hefði heimild til að veita þessar upplýsingar? Það var líka önnur leið. Ég veit ekki hvort hún var rædd á milli ríkisstjórnarflokkanna eða innan þeirra, en mig grunar að það hafi ekki verið gert, það hafi beinlínis allan tímann verið ásetningur ríkisstjórnarflokkanna að draga úr veiðigjaldinu og þess vegna hafi sú leið verið valin sem var valin. Og ég er ósammála henni.

Þetta var engu að síður gert og við teljum að þetta hafi grafið undan tekjugrunni ríkissjóðs bæði í ár og á næsta ári. Þetta er meðal annars ástæða þess að það er vandi að sauma saman fjárlagafrumvarpið þannig að afgangur verði eins og hér hefur ítrekað komið fram í umræðum.

Við teljum líka að í fjárlagafrumvarpinu birtist neikvæðar áherslur að því er varðar jöfnuð í samfélaginu. Boðaðar skattkerfisbreytingar, þær skattkerfisbreytingar sem voru gerðar, breytingin á til dæmis vaxtabótakerfinu og við getum nefnt innritunargjöldin í háskólana og fleiri þætti af þeim toga, þetta er allt að okkar mati til þess fallið að auka ójöfnuð í samfélaginu. Verðlagsforsendurnar sem liggja hér til grundvallar og þær breytingar á margháttuðum gjaldskrám hins opinbera munu leiða til hins sama, að þeir sem hafi minni tekjur borgi stærri hluta af tekjum sínum vegna ýmissa gjalda, t.d. bensíngjaldsins/olíugjaldsins sem við fjölluðum hér um þegar við vorum að ræða tekjuforsendur frumvarpsins.

Við teljum líka að það skjóti skökku við að draga úr framlögum til sprotastarfsemi, til nýsköpunar og tækniþróunar. Við héldum satt að segja að það væri almennt mjög góð og breið pólitísk samstaða um að vaxtarbroddar okkar og sóknarfæri í atvinnulífi lægju ekki síst þar. Það hefur sýnt sig að hver króna sem fer í stuðning við nýsköpun og þróun, hver króna sem fer í styrk til rannsókna og vísinda, skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Það tekur vissulega oft tíma, það þarf að hafa mikla þolinmæði því að það getur tekið tíma. Sérstaklega á það við um vísindalegar grunnrannsóknir, það getur tekið mörg ár og jafnvel áratugi áður en þær skila sér margfalt til baka til samfélagsins. Við teljum að með ákvörðunum í fjárlagafrumvarpinu um að draga úr framlögum til Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs, markáætlunar á sviði vísinda og tækni og með því að gera breytingar á endurgreiðslureglum vegna þróunarkostnaðar í atvinnulífinu sé verið að skaða þessar mikilvægu atvinnugreinar sem eru að okkar mati vaxtarbroddur til framtíðar litið. Við teljum mjög bagalega áherslu birtast í fjárlagafrumvarpinu.

Það er líka rétt að vekja athygli á því að enda þótt fjárlagafrumvarpinu sé skilað af hæstv. fjármálaráðherra, eins og hann lagði það fram, með örlitlum tekjuafgangi og sá tekjuafgangur aðeins aukinn miðað við breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar eru það ekki stórar upphæðir. Ég hef tilhneigingu til að segja að frumvarpið sé í jafnvægi eins og það lítur út því að mér liggur við að segja að einhver hundruð milljóna króna til eða frá í plús eða mínus séu innan allra skekkjumarka í ríkisumsvifum upp á 600–700 milljarða. Það er því veikur tekjugrunnur. Seðlabankinn segir reyndar líka að forsendur fjárlaganna séu byggðar á veikum, óljósum og brothættum forsendum. Mér finnst mikilvægt að menn gefi þessu dálítinn gaum og velti fyrir sér hvað þarna kunni að búa að baki. Meðal annars eru einhverjar æfingar sem ég átta mig ekki alveg á hvernig menn fá til að ganga upp að því er varðar skuldabréf í Seðlabankanum. Þar er ríkið að spara sér, að því er talið er, útgjöld upp á nærri 11 milljarða með því að breyta skilmálum skuldabréfsins, skuldabréfs sem var gefið út á sínum tíma til að endurreisa Seðlabankann eftir efnahagshrun. Það er gert með því að lengja þetta skuldabréf í allt að 20 ár og hafa það vaxtalaust.

Ég minnist þess að í viðtali um þetta mál lét seðlabankastjóri hafa það eftir sér að þetta væru kannski fyrst og fremst ásýndarmál og að sumu leyti einhverjar bókhaldsæfingar. Ég kann ekki að fullyrða um það, en það bendir að minnsta kosti til þess að þetta sé ekki traustasti grunnurinn sem hugsast getur. Það skiptir náttúrlega máli hvort tekjugrunnur upp á 11 milljarða sem menn eru að tala um í þessu samhengi er raunverulegur eða ekki. Ég ætla ekki að fullyrða að þetta standist ekki, en ég hef áhyggjur af því að þetta sé veikt.

Síðan eru ýmis önnur atriði sem hafa einnig komið fram af hálfu Seðlabankans og varða til dæmis viðskiptakjörin. Það er líka áhyggjuefni að viðskiptakjörin hafa versnað og það er jafnvel búist við að þau eigi enn eftir að versna. Þar er sennilega verið að tala um á annan tug prósenta lakari viðskiptakjör á milli ára og hafa þau þá sennilega ekki verið eins slök í nokkra áratugi. Miðað við það hefði maður ætlað að fjárlagafrumvarpið tæki með einhverju móti á þessu eða sýndi að minnsta kosti einhver viðbrögð ríkisstjórnarinnar. Eftir því sem ég fæ best skilið er ekki tekið sérstaklega á því.

Ég nefndi aðeins veiðigjöldin. Ég ætla ekki að fara meira í þau að þessu sinni en vil hins vegar nefna hér atriði sem varðar skuldamál heimilanna, mál sem var býsna mikið til umfjöllunar á síðasta vetri í aðdraganda kosninga. Auðvitað höfðu stjórnmálaflokkarnir ýmis sjónarmið uppi í því hvernig ætti að taka á þeim málum. Ég minnist þess að núverandi ríkisstjórnarflokkar sem voru í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili töluðu mikið um það að þáverandi ríkisstjórn hefði ekkert gert — og það var ítrekað sagt í þessum ræðustól — í þágu heimilanna í landinu sem glímdu við vaxandi skuldir vegna efnahagsáfallsins. Svo kemur skýrsla á vegum núverandi ríkisstjórnar síðasta dag nóvembermánaðar þar sem kynntar eru þær leiðir sem núverandi ríkisstjórn vill fara. Ekkert nema gott um það að segja, en þar kemur þó fram að til frádráttar þeim aðgerðum sem núverandi ríkisstjórn hyggst grípa til komi þær aðgerðir sem heimilin hafi þegar notið. Þá kemur þar fram í yfirliti að það er bara ekki svo lítið sem þegar hefur verið gert sem segir manni náttúrlega að ekki var innstæða fyrir þeim málflutningi hér á síðasta kjörtímabili að ekkert hefði verið gert. Svona er pólitíkin stundum óvægin. Sem betur fer hafði heilmikið verið gert en ég er í hópi þeirra sem telja að ýmislegt mætti gera betur í því.

Það skiptir geysilega miklu máli að við horfum á heildarmyndina, á kjör fólks í landinu. Greiðslubyrðin af lánum er ekki einangruð stærð í bókhaldi fjölskyldnanna í landinu. Hún vegur þungt hjá mörgum, mjög þungt, hjá öðrum minna og augljóslega ekkert hjá skuldlausum heimilum, þannig að það er mjög misjafnt hvað þessi þáttur vegur mikið í bókhaldi hvers heimilis.

En það eru svo margir aðrir þættir. Það skiptir barnafjölskyldur ekki síður máli hvernig til dæmis leikskólagjöldin þróast. Það var nefnt aðeins í umræðu í gær að sveitarfélögin hefðu verið með áform um að hækka gjöld fyrir sína þjónustu, m.a. leikskólagjöldin og almenningssamgöngur. Orkukostnaður heimilanna, rafmagn og hiti, hefur hækkað umtalsvert á undanförnum árum og það hefur áhrif á heildarmyndina fyrir fjölskyldurnar í landinu. Barnabæturnar gera það líka. Ríkisstjórnin hafði uppi áform um að draga úr þeim, sem hefur verið fallið frá en á móti kemur að hluti af þeim kostnaði er þá tekinn út sem viðbótarlækkun á vaxtabótum. Ég ætla ekki að hafa neina sérstaka skoðun á þeirri tilfærslu í sjálfu sér. Það sem mér finnst skipta máli er hvernig þetta kemur út. Hefur það verið reiknað? Hver er heildarmyndin fyrir venjulegar fjölskyldur? Allar aðgerðir af þessum toga hafa einhver áhrif með mismunandi hætti á mismunandi fjölskyldugerðir.

Nú er ég ekki að segja að menn þurfi endilega að reiða fram reikning fyrir hverja fjölskyldu í landinu. Það sem mér finnst skipta máli er að aðgerð af þessum toga, hvort sem það er lækkun á höfuðstól húsnæðislána, breytingar á vaxtabótum, barnabótum, ýmsum opinberum gjöldum, hvort sem er hjá sveitarfélögum, ríki eða enn öðru, náttúrlega bara verðlagshækkanir almennt í samfélaginu, á nauðsynjavörum, allt hefur þetta áhrif með einhverjum hætti og menn þurfa að átta sig á því hvort verið sé að færa til byrðar í samfélaginu með ákvörðunum sem teknar eru til dæmis í gegnum fjárlagafrumvarp. Það finnst mér grundvallaratriði. Þess vegna hef ég spurt í andsvörum við þingmenn hvort það hafi komið fram í vinnu efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar, sem hafa fjallað um sína hlutina hvor í fjárlagafrumvarpinu, hvað tilfærsla eins og að skerða barnabætur og setja hluta af því frekar sem skerðingu í vaxtabótum þýðir. Vita menn nákvæmlega hvernig það kemur út, hvaða áhrif það hefur? Hvaða tilflutning hefur það í för með sér á afkomu einstakra gerða fjölskyldna? Ég veit það ekki, ég hef ekki séð þessar upplýsingar. Ég veit ekki hvort þær hafa verið reiddar fram en mér finnst það skipta máli fyrir umræðuna.

Mér finnst það skipta máli fyrir fjölskyldurnar. Eitt er það að margar fjölskyldur sjá fyrir sér að greiðslubyrði þeirra lækki með því að höfuðstóll skulda lækki. Það getur skipt verulegu máli ef greiðslubyrðin lækkar um einhverja tíuþúsundkalla, mikil ósköp, en ég vil vita hvort það er tekið aftur með einhverjum öðrum hætti í gegnum eitthvað annað. Mér finnst það líka skipta máli.

Veruleikinn í þessu er ekki bara svartur og hvítur, ekki bara ferkantaður. Þetta er miklu fjölbreyttari mynd og alla þessa þætti þarf að taka inn í þessa umræðu.

Ég hefði gjarnan viljað fara inn í einstök mál bæði í breytingartillögum frá fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í fjárlaganefnd og breytingartillögum ríkisstjórnarmeirihlutans. Tími minn hefur meira og minna farið í að ræða almennt um fjárlagafrumvarpið og hina stóru mynd og það er kannski ágætt að gera það í fyrstu ræðu í málinu og sjá svo til hvert maður kemst í næstu ræðu, en af því að það fer að sneyðast um tímann hjá mér er þó eitt mál sem ég ætla að taka sérstaklega að þessu sinni í tillögum ríkisstjórnarinnar og meiri hluta fjárlaganefndar. Það varðar legugjöldin, eða komugjöldin, á sjúkrastofnanir.

Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram voru áform um að leggja á sérstök legugjöld á sjúkrastofnanir. Grunnurinn að þeim útreikningi var að innheimta 1.200 kr. gjald fyrir hvern legudag og var gjaldinu ætlað að koma á móti svonefndum hótelkostnaði sjúkrahúsanna. Það átti að vera 1.200 kr. fyrir hvern legudag. Þessi áform mættu mikilli andstöðu úti í samfélaginu almennt, bæði vegna þess að þarna væri verið að leggja auknar byrðar á sjúklinga og alls ekki síður vegna þeirra prinsippbreytinga sem væru að verða á því hvernig við veitum heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Nú eru uppi áform um að breyta þessu, að þetta verði ekki gjald á hvern legudag heldur komugjald á sjúkrahúsin sem er væntanlega borgað einu sinni þegar sjúklingar koma á sjúkrahús, óháð því hvort þeir liggja í einn sólarhring eða þrjá eða fimm. Menn hafa spurt í þessari umræðu: Hvert verður þá þetta gjald? Það er ekki gert ráð fyrir annarri fjárhæð, það er áfram gert ráð fyrir því að þetta gjald skili tæpum 290 millj. kr. á árinu 2014. Það er áfram gert ráð fyrir því hjá einstökum sjúkrastofnunum. Í breytingartillögu frá efnahags- og viðskiptanefnd um lögin á sjúkratryggingunum er gert ráð fyrir því, eins og ég hef skilið það, að þetta gjald sé ákveðið með reglugerð. Mér finnst satt að segja býsna langt seilst í reglugerðarheimild ef löggjafinn ætlar að heimila framkvæmdarvaldinu að setja reglugerð um það án þess að hafa neitt viðmið í lögunum sjálfum um hvert gjaldið á að vera. Þessa útfærslu kann ég því miður ekki en ég hef áhyggjur af þessu.

Ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir einhverjum vikum um áætlaðar tekjur af legugjöldum og þá gekk ég út frá því sem stóð í fjárlagafrumvarpinu sjálfu um legugjöldin fyrir hvern legudag. Af svari heilbrigðisráðherra sem liggur fyrir á þskj. 169 má ráða hvert komugjaldið verður og mér finnst það mikilvægt innlegg í þessa umræðu af því að hér hefur hver þingmaðurinn á fætur öðrum rætt um þessi komugjöld og spurt: Hvert á það að vera? Það hefur enginn getað svarað því, en nú liggur það reyndar fyrir í þessu svari frá heilbrigðisráðherra við fyrirspurn minni. Það kemur fram í svarinu að tekjurnar eigi að vera 289,4 milljónir. Það kemur fram að legudagafjöldinn sé áætlaður 244.747 og það kemur fram að á árinu 2012 hafi meðallengd legu á sjúkrahúsinu verið á bilinu átta til níu dagar. Þá geta menn reiknað dæmið: Að gefnum upplýsingum um meðallengd legu er gert ráð fyrir því að fjöldi greiðenda verði á bilinu 27–30 þúsund og að komugjaldið verði þá 10–11 þús. kr.

Í hugmyndum um breytingu á sjúkratryggingalögunum segir að aldraðir og börn skuli greiða lægra gjald. Það segir ekki hversu miklu lægra, það er væntanlega þá bara ráðherrann sem ákveður það með reglugerð. Segjum að það væri hálft gjald, þá skiptir máli hvað þessi hópur er stór hluti sjúklinganna. Ef hann er helmingur, sem ég veit ekkert hvort hann er, það er skot út í loftið, geta menn reiknað út frá þessum tölum hvert gjaldið væri fyrir aldraða og börn og hvert það væri fyrir aðra. Mér sýnist í fljótu bragði að það gæti verið 18 þús. kr. og 9 þús. kr. eða eitthvað. Þetta er hægt að reikna og þetta er mikilvægt innlegg í þessa umræðu um komugjöldin á sjúkrahúsunum. Það stefnir sem sagt í það að komugjaldið verði samkvæmt þessu að jafnaði 10–11 þús. kr. með einhverju bili, allt eftir því hver afslátturinn á að vera fyrir aldraða og börn og hver hlutdeild þeirra í heildarfjölda sjúklinga yfir árið er, en þær upplýsingar liggja ekki fyrir.

Ég hef lokið máli mínu að sinni, virðulegur forseti, og þakka prýðilegt hljóð.