143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í umræðuna. Ég fagna því líka að stjórnarliðarnir hafi verið hér í andsvörum vegna þess að það er mjög gaman að fylgjast með umræðunni. Hún er akkúrat um það hvernig við getum fundið ákveðnar lausnir eða hvaða hugmyndafræði sem er á bak við það sem við höfum verið að ræða.

Það var einhver sem orðaði það þannig að fjárlögin væru lifandi plagg. Mér sýnist það alltaf vera að koma betur og betur í ljós vegna þess að það eru að koma tillögur frá varaformanni fjárlaganefndar um breytingar á sama tíma og við stöndum í ræðustóli. Ég er eiginlega farinn að kalla þetta drög 2 og bind miklar vonir við að við sjáum enn þá meiri breytingar í síðustu umræðunni vegna þess að það er alveg greinilegt að það sem kemur fram hérna batnar með hverjum deginum.

Mig langar aðeins að heyra athugasemdir og vangaveltur hv. þingmanns hvað þetta varðar vegna þess að þetta er býsna óvenjulegt. Þótt við höfum verið að breyta fram í 3. umr. er greinilegt að það er að koma frá einstaklingum innan fjárlaganefndar til viðbótar við það sem kemur annars vegar frá ríkisstjórn og hins vegar frá fjárlaganefnd.