143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:32]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er svolítið óvenjulegt og ánægjulegt um leið og sýnir kannski að þótt við stjórnarandstæðingar höfum kvartað yfir því að það vanti stjórnarliða til að taka þátt í umræðu og hlusta á okkur er það þannig að við erum ekki að tala alveg út í tómið. Eitthvað skilar sér. Það er óvenjulegt að það komi breytingartillögur frá einstökum þingmönnum eða nefndarmönnum í fjárlaganefnd inn í umræðuna, það er rétt, en það er ekkert sem bannar það. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að það sé gert og það er fullkomlega heimilt. Við getum öll gert það, við getum enn þá öll komið með breytingartillögur í okkar nafni við fjárlagafrumvarpið ef því er að skipta. Ég sagði áðan að það hefðu komið fram breytingartillögur núna rétt fyrir kvöldmat frá hv. þingmönnum Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Höskuldi Þór Þórhallssyni og að ég hefði ekki haft tíma til að skoða þær neitt eða það sem í þeim felst, ég heyrði bara að þeim var útbýtt. Ég veit ekki hvað í þeim felst (Forseti hringir.) en miðað við orð hv. þingmanns eru þær til bóta.