143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessa fyrirspurn eða ábendingu. Ég tel að það liggi fyrir samkvæmt svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn minni og miðað við þá forsendu að enn sé gert ráð fyrir 290 millj. kr. í sértekjur til sjúkrastofnana vegna þessara komugjalda. Það er gert ráð fyrir því í frumvarpi nefndarinnar um sjúkratryggingar að aldraðir og börn greiði lægra gjald. Ef við gefum okkur að þeir séu til dæmis að borga hálft gjald og ef við gefum okkur að þeir séu helmingur af þeim sem borga afsláttargjald þyrftu gjöldin væntanlega að vera 15 þús. kr. annars vegar og 7.500 kr. hins vegar, en þá samsetningu þekki ég ekki, hún kemur ekki fram í svari heilbrigðisráðherra, en það er hægt að gefa sér ákveðnar forsendur í því efni. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta gjald gæti þurft að vera býsna hátt og það er þá fyrir hverja komu. Það eru 27–30 þús. greiðendur samkvæmt svari ráðuneytisins. Væntanlega eru sumir að koma oftar en einu sinni og þá eru þetta orðnar býsna háar upphæðir.