143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:40]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég gerði athugasemd við það í mínu máli að röksemdir stjórnarliða í vor og sumar hefðu verið þær að ekki hefði verið hægt að framkvæma hlutina eins og gert var ráð fyrir. Við bentum á það að hafi skort lagastoð til að veita veiðigjaldsnefndinni nauðsynlegar upplýsingar til að reikna út veiðigjaldið hefði átt að ráða bót á því.

Tekist var á um þetta og menn rifust dálítið um það hver hefði rétt fyrir sér í þessu efni. (Gripið fram í.) Kannski voru það bara báðir. Já, svo voru gerðar þessar breytingar og tilfærsla yfir á uppsjávarfiskinn, það er rétt. Ég velti fyrir mér hvort sú breyting hefði getað gengið þá líka fyrir botnfiskinn. Hv. þingmaður er bersýnilega ósammála því og talar hér um að afkoman í sjávarútvegi núna sé að þakka uppsjávargeiranum. En sýna ekki einmitt afkomutölurnar í sjávarútveginum fram á það að greinin er aflögufær og hefði verið aflögufær um meira en hún greiðir samkvæmt ákvörðun núverandi ríkisstjórnar? (Gripið fram í.)