143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Áfram með virðisaukaskattinn, hann er mikilvægur tekjustofn og það þarf að huga að honum. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur talað um það hér oftar en einu sinni að hann óski eftir þverpólitískri vinnu við að endurskoða virðisaukaskattskerfið með það í huga að ekki verði eins langt bil á milli þrepa og það verði færri undanþágur. Af því að mér er kunnugt um að hv. þingmaður hefur velt þessum málum aðeins fyrir sér vil ég spyrja hann hvernig hann taki í þessa beiðni eða framsetningu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og hvaða hliðaraðgerða hann telji að grípa þurfi til ef virðisaukaskattskerfinu er breytt þannig að við verðum til dæmis (Forseti hringir.) aðeins með eitt þrep.