143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég heyrði rétt taldi hv. þingmaður sig knúinn til að koma í ræðustólinn til að leiðrétta rangsannindi sem ég hefði farið með. Þannig heyrði ég það, er það ekki rétt? Rangsannindi. Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt. Við höfum verið sökuð um það að ljúga fyrir fram núna nýlega af merkum stjórnmálamanni og nú eigum við að vera að fara hér með rangsannindi.

Allar þessar tölur liggja fyrir. Það er ekkert nýtt í því sem hv. þingmaður fór hér með. Það er alveg rétt, það var dregið úr útgjöldum á öllum sviðum. Þróunarsamvinnan varð síst meira fyrir barðinu á því en ýmislegt annað á árunum 2009, 2010 og 2011, en síðan snerum við við blaðinu og hófum að hækka hana og náðum að hækka hana aðeins á árinu 2012. Var þó landsframleiðslan að aukast mikið milli ára. Síðan hækkuðum við hana myndarlega á árinu 2013.

Þetta var ekki gert út í loftið, þetta var ekki bara eitthvað sem kom af himnum ofan rétt fyrir kosningar. Hér var unnin mjög vönduð áætlun um það hvernig við gætum í áföngum á næstu árum byrjað að hífa þetta upp þannig að við kæmumst um það bil hálfa leið í mark, var það ekki, á tímabili áætlunarinnar til 2017 eða svo? Það var allt og sumt. (ÁÞS: Að fullu 2019.) Og að fullu 2019. En þá auðvitað þurfti að taka mjög stór skref í lokin.

Það urðu umræður um þessa tillögu, t.d. í ríkisstjórn áður en hún fór þaðan út til þingsins. Ýmsir vildu reyna að gera betur en niðurstaðan varð sú að reyna að hafa þetta tiltölulega hógværa, raunhæfa áætlun sem ætti að vera hægt að standa við. Og það tel ég að hún hafi verið. Og með batnandi þjóðarhag á Íslandi, hvernig ætla menn að útskýra að allt í einu núna á árinu 2014, þegar fjárlögin eiga þó að vera komin í jöfnuð, að þá sé svo erfitt að við verðum að skera þróunaraðstoð sérstaklega niður? Það gengur bara ekki upp.

Móðgunin sem ég talaði um var ekki — hv. þingmaður hefur greinilega ekki hlustað á ræðuna — sérstaklega skerðingin heldur framsetningin, að bjóða íslensku þjóðinni upp á það að við séum svo aum, (Forseti hringir.) Íslendingar, að við verðum að velja á milli þess að reka Landspítalann okkar og leggja af mörkum til þróunaraðstoðar.