143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður er það hálfhjákátlegt að þurfa að hlusta á þessi rök þegar hv. þingmaður dregur þetta til baka. Vissulega, eins og hann sagði, var farið af stað árið 2013. Þáverandi ríkisstjórn hækkaði framlögin um heilan nýjan milljarð og fór með þau upp í 0,05% af vergum þjóðartekjum á grundvelli áforma um nýja tekjuöflun í formi veiðigjalds og óútfærðra 3 milljarða kr. tekna sem ekki voru nægar forsendur fyrir. Það var nú bara svo. Það er búið að vera vandamál þessarar ríkisstjórnar, að reyna að draga til baka allar þær hækkanir og þau handsöl og handabönd sem gerð voru úti um allt land, samningar sem engin innstæða var fyrir.

Virðulegi forseti. Það kom vel fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, það er ekki sama hverjir það eru sem lækka þróunaraðstoðina. Það er í lagi ef það eru Vinstri grænir og Samfylking en þegar það eru Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn er það alveg ófært mál, eins og hv. þingmaður fór yfir, alveg ófært mál, móðgun við íslensku þjóðina (Forseti hringir.) og hneyksli.

Virðulegi forseti. Nú hef ég leiðrétt þetta og vonandi þarf ég ekki að svara fyrir þetta á ný.