143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa stór orð um málflutning hv. þingmanns. Ég hef heldur verið í því að reyna að (VigH: Þú ert kominn út í horn.) vera henni hjálplegur en hitt hérna síðustu dagana á þingi, finn mig bara satt best að segja ekki í öðru. En það er náttúrlega dapurlegt að heyra menn fjalla um tölur með þessum hætti. Áttar hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar sig ekki á því að þegar landsframleiðslan hrynur niður um tæp 11% samtals á árunum 2009 og 2010 (VigH: Það er ekki sama hver lækkar.) líta framlögin út fyrir að vera hærra hlutfall þegar búið var að binda þau í erlendum gjaldmiðlum, meira að segja sumpart fyrir hrun krónunnar? Það þýðir ekkert að bera þessar tölur svona saman. (VigH: Nei, nei, auðvitað ekki.)

Herra forseti. Þetta er greinilega voðalega viðkvæmt. Ég hef fyrst og fremst áhyggjur af fjárlaganefnd þegar ég velti þessum orðaskiptum fyrir mér. Ég held að ég segi bara ekki meir um málið.