143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hvað sem kann að standa í einhverjum bókum einhvers staðar úti í bæ er rangt að það hafi nokkurn tímann verið á dagskrá í ríkisstjórn þegar verið var að ræða undirbúning fjárlaga fyrir árið 2013 að lækka þróunaraðstoð. Það var aldrei á dagskrá og var aldrei rætt. Það sem var verið að ræða var að það mundi taka í að hækka hana um 1 milljarð kr. Það er rétt, það urðu skoðanaskipti um hvort það væri kannski ívið of strembið. En sú varð niðurstaðan. Auðvitað er sérkennilegt að þurfa að lesa á prenti um þau mál sem voru rædd eins og gengur þegar menn eru að velta fyrir sér öllum sköpuðum hlutum í sambandi við undirbúning fjárlaga og var full samstaða um að gera eins og mögulega væri hægt í því að standa við þá nýsamþykkta þingsályktun um þróunaraðstoð. Það skal vissulega viðurkennt að það var talsvert átak að hækka þessa tölu um 1 milljarð kr. þarna á einu bretti, en það var gert. Var það ekki niðurstaðan sem skipti máli?

Varðandi sjávarútveginn ætla ég ekki að láta veiða mig í það að fara að nefna einhverjar tölur hér um hvað við ættum til dæmis að hækka þetta mikið á þorskígildi í uppsjávarveiðum. Ég er algerlega sammála ræðumanni um að sú grein sjávarútvegsins fer mjög létt með þetta gjald, ræður vel við það eins og það er í dag. Það voru innstæður fyrir því að hækka það, það sagði ég hér í sumar sem leið, en ég tel að menn hafi gengið allt of langt í lækkun botnfisksgjaldsins. Það mætti skoða að spila saman einhvern einingarafslátt, m.a. vegna þess að málflutningurinn hér síðastliðið sumar var að þetta væri að setja litlu útgerðarfyrirtækin á hausinn, er það ekki? Ég er út af fyrir sig sammála hv. þingmanni, það eru til vel rekin og miður vel rekin útgerðarfyrirtæki af öllum stærðum og það geta verið til mjög hagkvæmar útgerðir sem eru ekkert endilega að veiða meira en 200–500 tonn á ári. En það eru ákveðin efnisleg rök fyrir ákveðnum einingarafslætti, það er viss fastur kostnaður og annað því um líkt sem leggst hlutfallslega þyngra á þá sem eru með litlar aflaheimildir (Forseti hringir.) en miklar. Það er hægt að færa ágæt rök fyrir því að það megi hafa (Forseti hringir.) prógressíft veiðigjald af því tagi.