143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur fyrir ræðuna og gaman að heyra upplifun hennar af því að vera komin í fjárlaganefnd. Það er auðvitað merkur áfangi og fróðlegt að vera í þeirri vinnu.

Mig langar aðeins að ræða við hv. þingmann um skólakerfið vegna þess að hún kom með athyglisverða fullyrðingu. Hún ræddi reiknilíkanið í framhaldsskólunum og taldi að framhaldsskólarnir hefðu setið eftir. Ég get tekið undir með henni að illa er að þeim búið og þarf að búa betur að þeim. Hún sagði að þar væri hópur sem ekki hefði staðið á torgum og hrópað um vandann. Er hún þar með að gefa í skyn að við fjárlagagerðina núna hafi hávaðamæling ráðið hvaða niðurstaða yrði í fjárlögunum?

Nú er ég í allsherjar- og menntamálanefnd og þar höfum við reynt að átta okkur á því hvaða breytingar verða á fjárlögunum. Nefndin hefur reyndar ekkert fjallað um það, en um það hefur verið fjallað í fjárlaganefnd. Við höfum óskað eftir fundi með hæstv. ráðherra, en formaður nefndarinnar hefur enn ekki haft tækifæri til að verða við því. Það var engu að síður búið að lofa því.

Þá langar mig að ræða pottana sem hafa verið að myndast og gegnsæið í því hvað verið er að gera. Menn eru að setja umtalsverðar upphæðir inn í menningarmálin og í forsætisráðuneytið sem eiga að fara í púllíu sem varðar húsafriðun, þjóðmenningu og ýmislegt annað, en við höfum ekki séð neina sundurliðun á því eða neinar útlistanir. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður getur upplýst mig, af því hún situr í fjárlaganefnd, hvort þetta hafi verið rætt og þá með hvaða hætti eigi að fara með þessa peninga. Hið sama gildir í menntamálunum, þar fóru 300 milljónir frá fjáraukanum yfir á næsta ár sem er mjög óeðlilegt en er engu að síður til staðar. Liggur fyrir hvernig á að ráðstafa þessu (Forseti hringir.) og umgjörðin hvað þetta varðar?