143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:23]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Varðandi það að túlka svör eru einmitt andsvörin til að fá svar frá viðkomandi þingmanni. Nú hefur hv. þingmaður svarað því að ekkert annað hafi legið í orðunum en að benda á hófsemi skólameistara framhaldsskólanna. Ég tek undir það og ég var að reyna að skerpa þá umræðu að það mætti ekki verða til þess að viðkomandi gyldu þess í sambandi við fjárveitingar. Nú hefur hv. þingmaður undirstrikað að það hafi ekki ráðið og þá trúum við því. Ég er ekki að túlka orðin, ég er að spyrja.

Varðandi pottinn er mjög hreinskilið að segja að það sé á mörkunum hér hvernig farið er með þá fjárveitingu. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma því hreinskilnislega fram.

Einn þáttur í viðbót, Ríkisútvarpið. Það kom tillaga í seinni umræðunni um að færa 215 milljóna viðbótarskerðingu á Ríkisútvarpið og færa það yfir í háskólann. Nú er komin tillaga frá varaformanni fjárlaganefndar. Er það tillaga sem er fyrir fram samþykkt af fjárlaganefnd eða er það einstaklingsframtak innan nefndarinnar? Nú höfum við bara fengið að vita (Forseti hringir.) af þessu í fjölmiðlum og gögnin eru komin hér inn, (Forseti hringir.) en við höfum ekki haft tækifæri til að fá svör við þessu.