143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:25]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Mig langar aðeins að spyrja hana út í hagræðingarkröfuna sem gerð var við ráðuneytin núna í breytingartillögunum sem er ofan á hagræðingarkröfuna sem gerð er í frumvarpinu sjálfu. Þetta er hagræðingarkrafa á aðalskrifstofurnar og er um 5% ef ég man rétt. Telur hv. þingmaður að of langt sé gengið? Eins og við höfum orðið vör við á okkar fundum gegna ráðuneytin gríðarlega mikilvægu hlutverki. Þau eiga að hafa eftirlit með sínum stofnunum, aðstoða undirstofnanir sínar og fylgjast með þeim og passa að þær séu innan fjárheimilda. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að þarna sé kannski of langt gengið og hvort ráðuneytin geti sinnt sínu hlutverki, stjórnsýslulega hlutverki, með svona mikinn niðurskurð.