143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:26]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ráðuneytin hafa eins og aðrar stofnanir mátt sæta niðurskurði á undangengnum árum. Ég veit að í öllum ráðuneytunum er gott fólk sem leggur mikið á sig til þess að hagræða og gera okkur kleift að ná hallalausum fjárlögum. Það hefur verið afar gott samstarf við starfsmenn ráðuneytanna. Það er alltaf of mikill niðurskurður þegar þarf að skera niður þegar ekki er úr miklu að spila, það er engin spurning í mínum huga. Ég treysti hins vegar eins og ég sagði þessu fólki til að vinna eins vel úr því fjármagni sem það hefur eins og mögulegt er.

Ég tel líka að það sé í rauninni rétt að skera úr efsta laginu áður en maður fer að skera úr neðsta laginu. Við kynntumst því t.d. mjög vel, skólameistarar, þegar fyrsti niðurskurður hófst eftir hrun. Við erum búin að standa saman í þessari baráttu. Hún er ekkert búin enn þá. Vonandi tekst okkur að koma því samt þannig fyrir, eins og ég sagði áðan, að byrðar þeirrar kynslóðar sem kemur til með að taka við af okkur verði ekki eins þungar og við hefði mátt búast ef við héldum áfram að safna skuldum.