143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Mig langaði að koma að tvennu í andsvörum, annars vegar því sem hv. þingmaður ræddi um heilbrigðisstofnanir og fyrirhugaðar sameiningar á því sviði. Ég þóttist greina í máli hv. þingmanns talsverðar efasemdir um það hvernig ætti að standa að þessu, þ.e. að framkvæma þar ákveðna stefnumörkun í gegnum fjárlög. Nú þekkir hv. þingmaður þau mál vel frá fyrri tíð sem hæstv. velferðarráðherra þannig að mig langar að spyrja hann hvort hann sjái fyrir sér að þessar sameiningar eigi eftir að skila aukinni eða betri þjónustu, faglegri samlegð þannig séð, eða þá hagræðingu í rekstri. Hv. þingmaður nefndi líka sérstaklega heilsugæsluverkefnin á Akureyri og Höfn í Hornafirði og ég spyr: Hver var reynslan af þeim ef við viljum horfa til þess hvernig við getum bætt þjónustuna án þess að auka tilkostnað, sem er það sem við erum iðulega að ræða hér í fjárlögum? Væri hugsanlega (Forseti hringir.) betri leið að hefja undirbúning að færslu heilsugæslunnar til sveitarfélaganna?