143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:24]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta mikilvæg söguleg upprifjun sem kemur hér frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni þar sem hann rifjar upp að virðisaukinn á ferðaþjónustuna var 14%. Hann var lækkaður tímabundið niður í 7% og til stóð að hækka hann að nýju með vaxandi gengi þessarar atvinnugreinar sem stóð sig vel, einfaldlega vegna þess að ferðamannastraumur til Íslands hefur aldrei verið meiri en núna og hefur farið mjög ört vaxandi.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta sé að auki spurning um hugarfar. Það er endurspeglun hugarfars að falla frá auðlegðarskatti upp á 9 milljarða á ári og koma síðan hér í ræðustól Alþingis og segja að menn hafi ekki efni á því að greiða desemberuppbót til atvinnulauss fólks. Auðvitað endurspeglar þetta pólitík sem og hugarfar.

Spurning mín er þessi: Ef innheimst hefði hálfur annar milljarður (Forseti hringir.) við virðisaukahækkun á ferðaþjónustuna, hvernig hefði hv. þingmaður forgangsraðað því, í atvinnuleysisbætur eða desemberuppbótina eða hvernig?