143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:25]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í rauninni svaraði ég því, og það liggur líka fyrir í tillögum okkar frá Samfylkingunni, að það svigrúm sem hægt er að búa til eigi að skila sér til lágtekjuhópanna og upp í miðtekjuhópana, að reyna eigi að fókusera á þann hluta, akkúrat þann hóp sem hefur orðið út undan í þessum fjárlögum.

Það er svolítið gaman að skoða í sambandi við ferðaþjónustuna gistináttagjaldið sem var sett á og var ófullkomið á margan hátt og hálfgert vandræðagjald svo ég segi hreinskilnislega frá — það væri gaman að telja á hve mörgum stöðum í fjárlagafrumvarpinu er sagt að útgjöldin lækki fyrir ríkissjóð vegna þess að gistináttagjald er hærra en reiknað var með.

Þar hefur það skilað sér vel til margra útgjaldaliða, sem betur fer. Það er í rauninni allt of lágt miðað við það sem þessi grein á að geta borið. Það er mjög mikilvægt að ferðaþjónustan sé í sama starfsumhverfi og aðrar atvinnugreinar núna þegar hún er orðin burðug eða að verða burðugri. Það er líka hægt að benda á í sambandi við virðisaukaskattinn að þegar menn eru að byggja upp fá þeir hann dreginn frá (Forseti hringir.) sem útskatt.