143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:28]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég skora á hann og skora á Framsóknarflokkinn, af því að ég treysti eiginlega betur á Framsókn hvað það varðar, að taka á þessu með fátæktina. Það er enn tækifæri til þótt við náum því ekki inn í fjárlögunum. Það er ekki of seint að borga desemberuppbótina. Það væri mjög eðlilegt að koma með hana inn í fjáraukann og ég mun styðja það heils hugar, enda flutti ég tillögu ásamt samfylkingarfólki og stjórnarandstöðunni allri um að gera það.

Það var ekki sýndartillaga. Við komum mjög seint með hana af því að við trúðum ekki að þetta mundi ekki vera með.

Varðandi heilsugæsluna úti á landi er stutta svarið mjög klárt: Það er ekki hægt að ná fjárhagslegri hagræðingu. Aftur á móti er hægt að ná fram betra skipulagi, það er hægt að ná því að styrkja þjónustuna á ákveðnum svæðum þannig að menn geti mannað stöðvarnar. Þar vilja menn ekki lengur vera á einmenningsstöðvum, þeir vilja vera í faghópum. Við getum bætt aðbúnaðinn þannig að menn geti þjónustað betur. Akureyringarnir hafa verið að gera mjög athyglisverðar tilraunir í sambandi við svokallaðar „rural“-lækningar, þ.e. dreifbýlislækningar, sem þarf að vinna með áfram. (Forseti hringir.) Þar eigum við líka helling inni varðandi atvinnumöguleika.