143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er grundvallaratriði, það sem hv. þingmaður nefndi áðan um að vekja von. Það er nákvæmlega það sem við höfum eiginlega séð alls staðar á Vesturlöndum, eiginlega allt frá því að núverandi Bandaríkjaforseti var kosinn út á það að veita von. Þetta er það sem öll vestræn ríki hafa átt við í þessum efnahagsþrengingum. Það held ég að sé ástæðan fyrir því að meira að segja mjög íhaldssamir aðilar í hagfræðilegum málefnum eru farnir að benda á að það dugi ekki að spara sig út úr kreppu. Við erum búin að sjá þessa tilhneigingu innan Evrópusambandsins þar sem hefur verið mjög hörð niðurskurðarstefna. Frakklandsstjórn hefur verið gagnrýnd fyrir að fara blandaða leið til að ná einhverjum tökum á ríkisfjármálum. Nú eru menn bara farnir að snúa frá þessari niðurskurðarstefnu. Mér finnst öfugsnúið að við séum að fara inn í hana af auknum krafti núna, þetta mörgum árum eftir að kreppan hófst, eftir að hafa tekið mjög harkalega á því á fyrstu árum kreppunnar (Forseti hringir.) og aðeins verið farin að snúa af þeirri braut undir lokin.