143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir mjög góða ræðu. Það sem einkennir alltaf ræður hv. þingmanns er einlægnin og að hún hefur alltaf fókus á fólkinu og þeim sem þetta allt saman snýst um. Ég þakka fyrir það. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt og eins að vekja athygli á því að þegar maður berst fyrir einhverju þá endar það oft með því að maður þarf að semja um niðurstöðu en í því felst forgangur. Þess vegna getur maður aldrei afsakað sig ef maður tekur ekki inn desemberuppbótina, maður hefði getað sett hana fram fyrir eitthvað annað, jafnvel þó að maður sé neyddur til að fara í málamiðlanir til að ná sátt um niðurstöðu.

Ég tek undir þá umræðu sem hefur verið hér að þegar menn eru að tala um niðurskurð þá má hann aldrei verða að hetjuleik. Ég verð að segja hreinskilnislega að á tímabili hafði maður þá tilfinningu sjálfur að maður væri allt í einu búinn að gleyma sér í því að hið fjármálalega umhverfi væri aðalatriðið en ekki grundvallarþjónusta.

Í lokin langar mig líka að nefna það sem mér finnst einkenna það sem er að gerast núna. Í raunveruleikanum er maður að upplifa það sem ég kalla thatcherisma. Menn eru búnir að finna það út að það borgar sig að gera sæmilega vel við einhvern tilgreindan miðjuhóp. Það kostar ekkert að skilja ákveðinn hóp eftir vegna þess að hann er ekki atkvæðisvænn, ef hægt er að orða það þannig, eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Þetta er stórhættuleg pólitík. Það er hlutverk okkar að gæta þeirra sem einhverra hluta vegna geta ekki gætt sín sjálfir í samfélaginu.

Varðandi fátæktarskýrsluna tek ég undir að við þurfum að vinna með hana áfram. Það er óvænt kominn mikill liðsstyrkur þar vegna þess að það er gríðarlegt átak í Evrópu gegn fátækt með stórupphæðum í gegnum Evrópusambandið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig þetta speglast svo við þróunaraðstoð og við það hvernig við búum að fátækum þjóðum. Við erum að vorkenna okkur að leggja til í samfélagi þjóðanna eitthvert eðlilegt framlag til einstaklinga sem lifa jafnvel á 1–2 dollurum á dag, hvort það slær ekki þingmanninn eins og mig (Forseti hringir.) að þarna sé verið að ráðast á ansi veikan hóp.