143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka spurningarnar og falleg orð í minn garð. Ég er einmitt slegin yfir þessu, einkanlega með þróunaraðstoðina. Sérstaklega finnst mér óþægilegt fyrir okkar hönd að skoða hve mikla þróunaraðstoð við fengum þegar við vorum nýfætt lýðræði, í gegnum tíðina höfum við fengið mikla hjálp og mikinn stuðning. Og að við séum ekki enn þá komin upp undir það að veita jafn mikið í þróunaraðstoð til ríkja sem eiga við erfiðleika að etja, það er einhvern veginn ekki hægt að gera sér þá erfiðleika í hugarlund nema fara og horfa á neyðina sem þar er, við getum bara ekki leyft okkur að bera það saman.

Ég hef verið mjög fátæk. Ég veit hvað er að vera fátækur. Ég veit hvað það er að sleppa því að borða þannig að ég geti gefið syni mínum að borða. Ég veit alveg hvernig það er. En ég hef aldrei látið mér detta í hug að bera mig saman við þá sem eru að svelta. Það er eitt að vera svangur og annað að svelta.

Ég man það líka þegar flóðbylgjan mikla varð þar sem um það bil jafn margir dóu og búa í Reykjavík, þá var ég einmitt mjög fátæk. En sonur minn vildi að í stað þess að kaupa flugelda mundum við gefa pening til stuðnings þeim sem þjáðust í Indónesíu. Þannig eigum við að hugsa því að eina gleðin sem maður fær í lífinu ef manni líður illa er að hjálpa öðrum sem hafa það verr.